Spila fótbolta með höfðum fórnarlamba

Þessi mynd birtist í áróðursmyndbandi Ríki íslams.
Þessi mynd birtist í áróðursmyndbandi Ríki íslams. Skjáskot

Rúmlega 31.000 konur innan hryðjuverkasamtakanna Ríkis íslams ganga með börn vígamanna. Samkvæmt nýrri skýrslu eru næstu kynslóðir vígamanna kerfislega búnar til innan samtakanna.

Rannsakendur í breska sérfræðingaráðinu Qullan hafa kannað hvernig Ríki íslams fær börn til að ganga til liðs við samtökin og þjálfa þau fyrir heilagt stríð eða „jihad“.

Gerð skýrslunnar var styrkt af Sameinuðu þjóðunum. Þar er því haldið fram að allt að 50 börn frá Bretlandi búi nú á yfirráðasvæðum Ríkis íslams og séu alin upp við hugmyndir samtakanna um heilagt stríð.

Þar kemur einnig fram að hryðjuverkamennirnir líti á börnin sem betri og hættulegri bardagamenn en þá sjálfa. Til þess að venja börnin við hrottaskapinn sem viðgengst í samtökunum eru börnin m.a. látin spila fótbolta með höfðum fórnarlamba samtakanna.

Við gerð rannsóknarinnar komust starfsmenn Qullan að því að drengirnir væru látnir fara með vers úr Kóraninum og gangast undir sérstaka jihad-þjálfun. Hún felst í skotæfingum, bardagalistum og kennslu í vopnabúnaði. Stúlkur eru hins vegar kallaðar „perlur kalífadæmisins“ og eru látnar bera slæður og geymdar á heimilum sínum þar sem þeim er kennt að sjá um eiginmenn sína.

Í samtali við The Independent sagði Nikita Malik, ein þeirra sem stjórnuðu rannsókninni, að 31.000 konur innan samtakanna væru óléttar. Að mati Malik sýnir það að verið sé kerfislega að fjölga hryðjuverkamönnum og það sé litið á það sem langtímaverkefni.

Í skýrslunni kemur einnig fram að frá ágúst 2015 til febrúar á þessu ári hafi 254 börn verið notuð í áróðri Ríkis íslams. Síðustu sex mánuði sýndu samtökin tólf börn taka fanga af lífi og eitt barn til viðbótar tók þátt í opinberri aftöku.

Sameinuðu þjóðirnar greindu frá því í júní á síðasta ári að á milli 800 og 900 börnum hefði verið safnað saman í Mosul og þau send í herþjálfun. Í ágúst var síðan greint frá því að 18 barnahermenn hefðu verið myrtir af liðsmönnum Ríkis íslams fyrir að flýja framvarðarlínu í Anbar-héraði og fara aftur til Mosul. Þá voru börn notuð til að taka af lífi 15 liðsmenn Ríkis íslams sem flúðu bardaga.

Íraskt barn sem flúði Mosul með fjölskyldu sinni.
Íraskt barn sem flúði Mosul með fjölskyldu sinni. AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert