Sprengjubrotin þeyttust út um allt

AFP

Talibanar stóðu á bak við sjálfsvígsárásina sem gerð var í Pakistan í gær. Að minnsta kosti 72 létust í árásinni sem var beint að kristnum fjölskyldum sem voru samankomnar í almenningsgarði þegar árásin var framin.

Yfir 200 særðust í árásinni en sprengjan var meðal annars full af stálhringjum (ball bearings) sem þeyttust inn í mannþröngina við barnaleikvöll í garðinum í borginni Lahore. Um það bil helmingur þeirra sem létust eru börn en margt fjölskyldufólk var í garðinum að fagna páskum.

AFP

Skotmörkin voru kristnir en flestir sem létust eru múslímar

Ehansullah Ehsan, talsmaður harðlínuhreyfingarinnar Jamaat-ul-Ahrar sem tilheyrir talibönum í Pakistan, segir að hreyfingin hafi framið árásina og kristnir hafi verið skotmarkið. Í viðtali við AFP fréttastofuna segir hann að Jamaat-ul-Ahrar muni halda uppteknum hætti og gera fleiri slíkar árásir. Helstu skotmörkin verði grunnskólar og menntaskólar auk skrifstofur hins opinbera og hersins.

AFP

 

Árásin er sú skelfilegasta í Pakistan það sem af er ári og segja vitni að aðkoman hafi verið skelfileg, börn öskrandi og fólk hlaupandi um með ástvini sína særða í fanginu. Á sama tíma var fólk hlaupandi um í leit að ástvinum sínum.

AFP

„Við fórum í garðinn til þess að njóta pásafrísins. Sprengingin kom skyndilega og ég sá risastóran eldhnött. Fjórir til sex úr minni fjölskyldu særðust. Tveir alvarlega,“segir 53 ára fjölskyldufaðir Arif Gill við AFP fréttastofuna. 

Talskona neyðarlínunnar, Deeba Shahbaz, segir að í dag hafi tala látinna verið komin upp í 72 og af þeim séu 29 börn. Flestir þeirra sem létust eru múslímar enda er þetta almenningsgarður og fólk af öllum trúarhópum sækir garðinn.

AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert