Þegja þunnu hljóði um skjölin

Vladimír Pútín kemur ekki sjálfur fyrir í Panamaskjölunum en nánir …
Vladimír Pútín kemur ekki sjálfur fyrir í Panamaskjölunum en nánir bandamenn hans eru sagðir tengjast milljarða dollara eignum í aflandsfélögum. AFP

Rússneskir ríkisfjölmiðlar hafa fram að þessu þagað þunnu hljóði um Panamaskjölin svonefndu. Nánir bandamenn Vladimírs Pútíns forseta eru bendlaðir við milljarða dollara peningaþvætti í gegnum aflandsfélög samkvæmt skjölunum. Óháðir fjölmiðlar hafa fjallað ítarlega um uppljóstranirnar.

Á meðan heimspressan hefur verið undirlögð af fréttum um aflandsfélög í eigu þjóðarleiðtoga, stjórnmálamanna, athafnamanna og fleiri nafntogaðra aðila í kjölfar leka á skjölum frá lögmannsstofunni Mossack Fonseca í Panama hafa ríkisfjölmiðlar í Rússlandi, sem eru ráðandi afl á fjölmiðlamarkaði þar, varla minnst á málið.

Í frétt International Business Times kemur fram að ekkert hafi verið minnst á málið í morgunfréttatímum ríkissjónvarpsstöðvanna. Sjónvarpsstöðin Rossiya 24, sem einnig er í eigu ríkisins, hafi birt stutta frétt á vefsíðu sinni um skjölin og tengsl alþjóðlegra íþróttastjarna við þau. Þá hafi enskumælandi vefurinn RT birt stutta frétt um gagnalekann en ekkert hafi verið minnst á ásakanir á hendur Pútín.

Enginn háttsettur embættismaður hafi tjáð sig um lekann, hvorki í gær né í dag. Í síðustu viku sagði hins vegar talsmaður forsetans að von væri á gagnaleka sem hann sagði tilraun til að ófrægja Pútín og vini hans. Talsmaðurinn sjálfur hefur nú verið bendlaður við aflandsfélag.

Skjölin benda til þess að tveir milljarðar dollara hafi farið í gegnum net aflandsfélaga og tengjast nánir bandamenn forsetans félögunum. Breska ríkisútvarpið BBC segir að nafn Pútín sjálfs komi þó hvergi fyrir í skjölunum frá Mossack Fonseca.

Frétt International Business Times

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert