Bandaríkjamenn og Rússar þurfa að taka þátt

Frá Aleppo á þriðjudaginn. Eyðileggingin er gríðarleg.
Frá Aleppo á þriðjudaginn. Eyðileggingin er gríðarleg. AFP

Fulltrúi Sameinuðu þjóðanna í málefnum Sýrlands hefur hvatt Bandaríkin og Rússland til þess að grípa inn í „eins mikið og hægt er“ til þess að bjarga friðarviðræðunum sem standa nú höllum fæti.

Staffan de Mistura sagði í dag að vopnahléið sem samþykkt var í febrúar væri „tæplega lifandi“. Ofbeldið í landinu hefur aukist síðustu daga en að minnsta kosti 20 almennir borgarar létu lífið í loftárásum stjórnarhersins á sjúkrahús og íbúðahús í Aleppo í gær.

Meðal þeirra látnu eru börn, tannlæknir og eini barnalæknirinn sem eftir var á svæðum uppreisnarmanna í borginni. Síðustu vikuna hafa rúmlega hundrað almennir borgarar látið lífið í átökum í Aleppo og þá bæði í árásum stjórnarhersins og uppreisnarmanna.

Samkvæmt frétt BBC er nú talið að sýrlenski herinn, með aðstoð lofthers Rússa, undirbúi stóra árás á Aleppo.

Sendinefnd uppreisnarmanna í friðarviðræðunum í Genf drógu sig úr viðræðunum í síðustu viku til þess að mótmæla brotum stjórnarhersins á vopnahléinu og hversu illa hefur verið staðið að dreifingu neyðarbirgða í landinu.

Í gær sagði de Mistura að vopnahléið gæti „hrunið hvenær sem er“.

Sagði hann jafnframt að síðustu 48 tímana  hefði að meðaltali einn Sýrlendingur verið drepinn á 25 mínútna fresti og einn særst á 13 mínútna fresti.

Sagði hann jafnframt að til þess að viðræðurnar geti haldið áfram þurfi ofbeldið að minnka og kallaði hann eftir aðstoð frá Bandaríkjunum og Rússlandi.

Að sögn de Mistura fara fram ein eða tvær umferðir af friðarviðræðum fyrir júlímánuð. „Það er enn mikið á milli en það gengur að semja um ákveðna hluti sem gekk ekki vel áður,“ sagði hann í gær. 

Rúmlega 270.000 manns hafa látið lífið síðan að stríðið í Sýrlandi hófst árið 2011 og milljónir manna hafa þurft að flýja heimili sín.

Barni er bjargað undir rústum húss í Aleppo í gær.
Barni er bjargað undir rústum húss í Aleppo í gær. AFP
Staffan de Mistura ræðir við blaðamenn.
Staffan de Mistura ræðir við blaðamenn. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert