Útgöngubann vegna morðsins

Frá mótmælum á Okinawa vegna nauðgunar hermanns á íbúa eyjunnar.
Frá mótmælum á Okinawa vegna nauðgunar hermanns á íbúa eyjunnar. AFP

Komið hefur verið á útgöngubanni eftir miðnætti í herstöð Bandaríkjamanna á japönsku eyjunni Okinawa í kjölfar handtöku fyrrum sjóliða sem grunaður er um að hafa myrt japanska konu.

Það verða „engir fögnuðir eða veislur á meðan íbúar Okinawa syrgja,“ sagði herinn í yfirlýsingu samkvæmt BBC. Bannið mun gilda fram til 24. júní.

Kenneth Shinzato, sem er 32 ára, var handtekinn 19. maí en hefur ekki verið ákærður. Margir íbúar eyjunnar eru mótfallnir veru Bandaríkjahers á Okinawa og atvikið hefur kynt undir spennu.   

Þrjátíu þúsund hermenn búa í herstöðinni en þeim hefur öllum með tölu verið bannað að sækja bari og skemmtistaði og drekka áfengi utan herstöðvarinnar. Bannið tekur einnig til fjölskyldna hermanna og óbreyttra borgara í vinnu hjá hernum.

Árið 1995 rændu þrír bandarískir hermenn 12 ára stúlku á eyjunni og beittu hana grófu kynferðisofbeldi. Gíf­ur­leg mót­mæli brut­ust út í kjöl­farið og ráðamenn í Washingt­on lofuðu að efla herag­ann til að koma í veg fyr­ir slíka glæpi og minnka um leið fót­spor Banda­ríkja­manna á Ok­in­awa. Áþekkir glæpir hermanna hafa hins vegar ítrekað komið upp og fyrr á árinu var sjóliði kærður fyrir að nauðga japanskri konu.

Frétt mbl.is: Meint nauðgun sjóliða eykur spennu

Engir flugeldar

„Við ættum ekki að vera að skjóta flugeldum. Ef við trúum raunverulega að við séum hluti af samfélaginu í Okinawa verðum við líka að syrgja. Og það gerum við,“ sagði herforinginn Lawrence Nicholsons.

„Það eru engin orð á enskri tungu sem geta tjáð það áfall, þann sársauka og þá sorg sem fylgir missinum á lífi þessa saklausa fórnarlambs. Bón mín til íbúa Okinawa er einföld: leyfið ekki þessu hræðilega ofbeldisverki að koma upp á milli samfélaga okkar.“

Lík konunnar, sem var tvítug og hafði verið saknað síðan í apríl, fannst á stað sem Shinzato gaf upp við yfirheyrslur. Lögregla segir hann játa að hafa skilið líkið þar eftir og að hann sé grunaður um morðið. Hann hefur ekki verið ákærður enn, en hægt er að halda honum í 21 dag án ákæru.

Um helmingur allra bandarískra hermanna í Japan er staðsettur á Okinawa. Til stendur að færa herstöðina á annan stað á eyjunni þar sem minna er um fólk en margir íbúar hennar vilja að hún verði alfarið flutt af eyjunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert