Brennd lifandi fyrir að hafna vonbiðli

Amma Mariu Sadaqat, ungu konunnar sem var pyntuð og brennd …
Amma Mariu Sadaqat, ungu konunnar sem var pyntuð og brennd lifandi, syrgir yfir líki hennar. AFP

Ung pakistönsk kona lést í dag eftir að hún var pyntuð og brennd lifandi í norðausturhluta landsins fyrir að hafa hafnað bónorði manns sem er tvöfalt eldri en hún. Hópur fólks undir forystu föður mannsins réðist á konuna, sem var nítján ára gömul, á mánudag.

Maria Sadaqat hafði kennt við einkaskóla þar sem faðir vonbiðilsins var skólastjóri. Frændi hennar segir að hún hafi hafnað bónorði mannsins þar sem hann var fráskilinn og tvöfald eldri hún. Hún hafi neyðst til að hætta störfum því feðgarnir linntu ekki látum.

Á mánudag réðist hins vegar hópur fólks, með skólastjórann í fararbroddi á Sadaqat í þorpi fyrir utan höfuðborgina Islamabad.

„Hún var pyntuð illa og síðan brennd lifandi. Við fórum með hana á sjúkrahús í Islamabad en hún lést af sárum sínum í dag,“ segir Abdul Basit, frændi ungu konunnar við AFP-fréttastofuna.

Lögreglan segir að Sadaqat hafi náð að nefna skólastjórann og fjóra aðra sem árásarmenn sína fyrir andlát sitt. Yfirmaður rannsóknarinnar segir að einn maður hafi verið handtekinn og leitað sé að hinum.

Þetta er annað skiptið á rúmum mánuði sem kona er myrt vegna hjónabandsmála í Pakistan. Unglingsstúlku sem talin er hafa verið 16-18 ára gömul var byrluð ólyfjan, kyrkt og lík hennar brennt samkvæmt skipan þorpsráðs í norðvesturhluta landsins 29. apríl. Hún hafði verið sökuð um að hjálpa vinkonu sinni að hlaupast á brott með ástmanni sínum.

Hundruð kvenna eru myrt af ættingjum á hverju ári í Pakistan undir því yfirskini að þeir séu að verja heiður fjölskyldunnar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert