Smáforrit vegna mögulegra hryðjuverka

mbl.is/skjáskot

Stjórnvöld í Frakklandi hafa gefið út smáforrit en því er ætlað að vera upplýsingaveita fyrir almenna borgara ef til hryðjuverkaárásar kemur. Evrópumótið í knattspyrnu hefst á föstudag.

Smáforritið notast við staðsetningartækni og mun vara þá við sem eru í nágrenni mögulegrar árásar. Þá mun fólk einnig geta óskað eftir því að fá viðvaranir um árásir á átta öðrum svæðum.

Þróun smáforritsins hófst í kjölfar hryðjuverkaárásanna í París í nóvember sl. 130 létust í árásunum.

Á þriðjudag vöruðu bresk yfirvöld við því að íþróttaleikvangar, stuðningsmannasvæði og samgöngumiðstöðvar væru meðal mögulegra skotmarka meðan á Evrópumótinu stendur.

Viðvaranirnar sem sendar verða út með smáforritinu munu innihalda stutta lýsingu á því sem hefur gerst auk öryggisleiðbeininga. Þær munu ekki valda því að síminn gefi frá sér hljóð eða titri, til að tryggja að ekki komist upp um þá sem kunna að vera í felum á vettvangi árásarinnar.

Stjórnvöld hafa lagt áherslu á að smáforritið brjóti ekki gegn friðhelgi notenda.

Næstu útgáfur smáforritsins munu gera notendum viðvart um önnur neyðartilfelli, s.s. flóð og iðnaðaróhöpp. Það er fáanlegt fyrir bæði iOS og Android.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert