Skutu sýrlensk börn á flótta

Landamæri Sýrlands að Tyrklandi hafa verið lokuð í nokkra mánuði.
Landamæri Sýrlands að Tyrklandi hafa verið lokuð í nokkra mánuði. AFP

Aðgerðasinnar segja tyrkneska landamæraverði hafa skotið átta sýrlenska flóttamenn, þar af fjögur börn, til bana er fólkið reyndi að komast inn fyrir landamæri Tyrklands. Þá segja mannréttindasamtök andamæraverðina hafa sært átta til viðbótar hið minnsta. BBC greinir frá þessu.

Tyrkneski herinn fullyrðir að verðirnir hafi einungis hleypt af skotum í viðvörunarskyni er fólkið reyndi að komast yfir landamærin norður af Sýrlenska bænum Jisr al-Shugour.

Tyrkir segjast vera ranglega sakaðir um verknaðinn en þeir séu undir miklum þrýstingi frá Evrópusambandinu að hindra för sýrlenskra flóttamanna sem leggja leið sína til álfunnar. Haft er eftir tyrkneskum yfirvöldum að þeir séu „ófærir um að staðfesta fullyrðingarnar“ um að skotið hafi verið á fólkið en að málið sé í rannsókn hjá yfirvöldum.

Á þriðju milljón manns sem flúið hafa stríðið í Sýrlandi hafa leitað skjóls í Tyrklandi en þarlend yfirvöld lokuðu landamærum sínum að Sýrlandi fyrir nokkrum mánuðum. Síðan við upphaf þessa árs hafa nær 60 óbreyttir borgarar verið skotnið við að gera tilraun til að komast yfir landamærin frá Sýrlandi til Tyrklands, segja eftirlitssamtök fyrir mannréttindum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert