Segir svartan föstudag fylgja úrsögn

Bandaríski kaupsýslumaðurinn George Soros er eins konar tákn fyrir vogunarsjóði.
Bandaríski kaupsýslumaðurinn George Soros er eins konar tákn fyrir vogunarsjóði. mbl.is

George Soros, einn frægasti gjaldmiðlaspákaupmaður heims, varar við svörtum föstudegi í Bretlandi kjósi Bretar að segja skilið við Evrópusambandið í þjóðaratkvæðagreiðslunni á fimmtudaginn. 

Soros, sem fæddist í Ungverjalandi en býr í Bandaríkjunum, græddi formúur þegar hann tók stöðu gegn breska pundinu þegar það féll á svarta miðvikudeginum svonefnda í september árið 1992.

Soros þénaði um einn og hálfan milljarð bandaríkjadala á einum mánuði með því að taka stöðu gegn breska pundinu og nokkrum öðrum evrópskum gjaldmiðlum sem voru of hátt skráðir gegn þýska markinu að því er fram kemur í umfjöllum Forbes um málið á síðasta ári.

Hann spáir því að Bretar kalli yfir sig fjármálaáfall hafni þeir Evrópusambandinu í þjóðaratkvæðagreiðslunni á fimmtudag. „Pundið mun falla mikið og hratt ef úrsagnarhliðin sigrar í atkvæðagreiðslunni,“ skrifaði Soros í breska dagblaðið The Guardian í morgun.

Vikunni lokar með svörtum föstudegi komi til úrsagnar

Verði úrsögn úr Evrópusambandinu ofan á á fimmtudag yrði Bretland fyrsta landið í Evrópusambandinu til að segja sig úr því eftir að það var stofnað. Bretland er fimmta stærsta hagkerfi í heimi og hafa ýmsir haldið því fram að komi til úrsagnar Bretlands ýti það af stað dómínóáhrifum sem verði endalok Evrópusambandsins sem var upprunalega stofnað til þess að tryggja frið í Evrópu eftir heimsstyrjaldirnar tvær á fyrri hluta síðustu aldar.

Í The Guardian spáir Soros því að gengi sterlingspundsins muni falla meira en það gerði árið 1992 þegar það féll um 15 prósent. „Ef úrsögn verður niðurstaðan gæti vikunni lokið með svörtum föstudegi og alvarlegum afleiðingum fyrir venjulegt fólk,“ skrifaði hann.

Helstu hlutabréfavísitölur hækkuðu í gærmorgun þegar skoðanakannanir sýndu aukinn stuðning við áframhaldandi veru Breta í Evrópusambandinu. Í frétt AFP segir að miklu rólegra sé yfir hlutabréfamörkuðum í dag enda sýndu þrjár kannanir sem birtust allar í Bretlandi í morgun að mjórra sé á munum á milli fylkinganna tveggja en í skoðanakönnunum gærdagsins þar sem 3% fleiri vildu vera áfram innan ESB en utan sambandsins.

Frétt mbl.is: Fylkingarnar nánast hnífjafnar

Í frétt AFP er einnig vísað til viðtals við Li Ka-shing, eins ríkasta manns Asíu, sem veitti fyrsta fjölmiðlaviðtal sitt utan Asíu í fjögur ár vegna Brexit-atkvæðagreiðslunnar. Ka-shing, sem kemur frá Hong Kong og er metinn á 34 milljarða bandaríkjadala skv. Forbes, segir að úrsögn muni hafa skaðleg áhrif á alla Evrópu.

„Auðvitað vona ég að Bretland segi sig ekki úr Evrópusambandinu,“ sagði hann í samtali við Bloomberg-sjónvarpsstöðina. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert