Fylkingarnar nánast hnífjafnar

AFP

Fylkingar þeirra Breta sem vilja úr Evrópusambandinu og vera þar áfram innanborðs eru nánast hnífjafnar ef marka má niðurstöður nýjustu skoðanakannana sem birtar voru í dag en kosið verður um málið í þjóðaratkvæði í Bretlandi á fimmtudaginn.

Fram kemur í frétt AFP að skoðanakönnun sem fyrirtækið ORB gerði fyrir breska dagblaðið Daily Telegraph sýni stuðningsmenn áframhaldandi veru í Evrópusambandinu með 49% fylgi en þá sem vilja úr sambandinu með 47%. Um sé að ræða minnsta forskot sem þeir fyrrnefndu hafi haft samkvæmt könnunum fyrirtækisins síðan í marsmánuði.

Staðan er talsvert önnur samkvæmt niðurstöðum skoðanakönnunar sem fyrirtækið YouGov gerði fyrir breska dagblaðið Times. Þar eru andstæðingar veru í Evrópusambandsins með 44% stuðning en stuðningsmenn sambandsins með 42%. Fram kemur í fréttinni að stuðningur við áframhaldandi aðild hafi dregist saman um 2% miðað við fyrri könnun fyrirtækisins.

Stuðningsmenn áframhaldandi veru í Evrópusambandinu hafa einkum lagt áherslu á efnahagsmál og fullyrt að gengi Bretland úr sambandinu hefði það í för með sér miklar efnahagslegar hremmingar. Þeir sem vilja úr Evrópusambandinu hafa lagt áherslu á mikilvægi sjálfstæðis og að Bretar gætu meðal annars stýrt eigin innflytjendamálum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert