„Vinsamlegast verið um kyrrt“

Ritstjórn Berlingske Tidende biðlar til Breta um að vera um …
Ritstjórn Berlingske Tidende biðlar til Breta um að vera um kyrrt í ESB. Skjáskot/Berlingske Tidende

Danska dagblaðið Berlingske birti í dag ritstjórnargrein á ensku þar sem Bretar eru hvattir til að kjósa að halda áfram aðild sinni að Evrópusambandinu. Er þar bent á að Danir eru einnig gagnrýnir á Evrópusambandið en að landið þurfi aðra sterka gagnrýnisrödd innan sambandsins.

Sem þjóð skiljum við Danir gagnrýni ykkar á Evrópusambandið, sennilega betur en nokkur önnur þjóð. Þrisvar kusum við nei – árið 1992, 2000 og 2015, en aldrei gengum við út,“ stendur í ritstjórnargrein blaðsins sem telst vera á hægri væng danskra fjölmiðla.

„Við skulum áfram vera í ESB og berjast fyrir pragmatískum, góðum og sjálfbærum lausnum fyrir Evrópu,“ og „berjast fyrir frjálsri verslun og fyrir því að brjóta niður umfangsmikið regluverk og skriffinnsku,“ segir í greininni.

Á forsíðu blaðsins var skopmynd af hálfnöktum manni sem verið er að skella hurð í andlitið á. Á hurðinni er stór ESB-fáni.

Danir gengu í Evrópusambandið árið 1973 en árið 1992 höfnuðu þeir Maastricht-sáttmálanum í þjóðaratkvæðagreiðslu. Árið eftir var sáttmálinn samþykktur með sérstökum ákvæðum um evruna, varnarmál, dómsmál og innanríkismál. Árið 2000 höfnuðu Danir evrunni í þjóðaratkvæðagreiðslu. Í fyrra var svo haldin þjóðaratkvæðagreiðsla um það hvort Danir ættu að aflétta fyrirvörum sínum gagnvart dómsmálastefnu ESB, en var því hafnað af dönskum kjósendum.

Lars Løkke Rasmussen, forsætisráðherra Danmerkur, er sammála David Cameron, forsætisráðherra Bretlands, um að takmarka eigi rétt evrópskra innflytjenda að barnabótum. Fáir stjórnmálamenn í Danmörku eru hins vegar hrifnir af því að yfirgefa ESB, enda er sambandið stór markaður fyrir danskar vörur.

Sjá ritstjórnargrein Berlingske.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert