Bretar kjósa að ganga úr ESB

Bretar hafa ákveðið að segja skilið við Evrópusambandið. Þetta eru niðurstöður þjóðaratkvæðagreiðslu um veru Breta í ESB, sem fram fór í gær að sögn fréttavefs BBC.  Segir BBC talningu og spá fréttavefjarins benda til þess að atkvæði falli þannig að 52% Breta hafi kosið að ganga úr ESB  en 48% vilji vera áfram innan sambandsins, en búið er að telja atkvæði í 374 af 382 héruðum landsins.

Miklar sveiflur voru á fylgi fylkinganna í nótt, en eftir því sem hefur liðið á talningu hefur forskot þeirra sem vilja út úr ESB aukist. Búið er að telja mikinn meirihluta atkvæða og hafa 16,8 milljónir  kosið að segja skilið við ESB en 15,7 milljónir vildu tilheyra sambandinu áfram og segir BBC það nú vera tölfræðilega ómögulegt að ESB-fylgismenn fari með sigur af hólmi.

Íbúar Skotlands og Lundúna voru mjög áfram um að tilheyra ESB áfram, á meðan íbúar Wales og héraða á Suður-Englandi vildu yfirgefa sambandið. Kosningaþátttaka á Norður-Englandi var léleg, en mun fleiri Bretar mættu þó á kjörstað en í síðustu kosningum.

Pundið ekki verið lægra í 31 ár

Pundið hríðféll er úrslitin lágu fyrir og hefur ekki verið lægra gegn dollaranum frá 1985. Þá féll heimsmarkaðsverð á olíu og hlutabréfavísitölur á mörkuðum í Ástralíu og Asíu, en mikil óvissa ríkir um framhald mála og er Bretland fyrsta aðildarríkið í 60 ára sögu Evrópusambandsins sem yfirgefur sambandið.

Í tilkynningu frá enska seðlabankanum segir að bankinn muni gera „allar nauðsynlegar  ráðstafanir“ til að tryggja nægt fjárflæði og fjárhagslegt öryggi eftir að úrslit kosninganna lágu fyrir. Bankinn fylgist grannt með stöðu mála og vinni náið með fjármálaráðuneytinu, öðrum stofnunum heimafyrir og seðlabönkum erlendis.

„Sigur fyrir venjulegt fólk“

Nigel Farage, formaður UKIP, sem sl. 20 ár hefur barist fyrir útgöngu Breta úr ESB, sagði á fundi með stuðningsmönnum: „Þetta vera sigur fyrir venjulegt fólk, fyrir almennilegt fólk.“

Hann hvatti David Cameron forsætisráðherra til að segja af sér, en AFP-fréttastofan hefur eftir Philip Hammond, utanríkisráðherra Bretlands, að Cameron muni áfram gegna embætti forsætisráðherra. Bæði Boris Johnson, fyrrverandi borgarstjóri Lundúna, og Michael Gove, sem tilheyra þeim armi Íhaldsflokksins sem vill segja skilið við ESB, hafa undirritað stuðningsyfirlýsingu við Cameron þar sem hann er hvattur til að sitja áfram.

Úrsögnin tekur a.m.k. tvö ár

Forsætisráherra Skota, Nicola Sturgeon, hefur sagt að úrslit kosninga sýni það skýrt að Skotar telji framtíð sinni best borgið innan ESB, en ESB-aðild var ofan á í öllum 32 héruðum Skotlands.

Bretland verður fyrsta aðildarríkið í 60 ára sögu ESB til að yfirgefa sambandið. Það mun þó ekki gerast samstundis, en að sögn BBC mun úrsagnarferlið taka að lágmarki tvö ár. Stuðningsmenn úrsagnar úr ESB hafa sagt að ekki ætti að ljúka ferlinu fyrr en 2020, þegar þingkosningar fara næst fram í Bretlandi.

Forsætisráðherra mun þurfa að ákveða hvenær hann eigi að virkja fimmtugustu grein Lissabonsáttmálans, sem mun veita Bretum tvö ár til að semja um úrsögn úr sambandinu. Þegar búið er að virkja 50. grein sáttmálans getur Bretland ekki gengið í ESB að nýju án samþykkis allra aðildarríkja.

Cameron hefur áður sagt að hann muni virkja greinina jafn fljótt og auðið er, ef kosningar féllu á þann veg að Bretar yfirgæfu sambandið, en þeir Boris Johnson og Michael Gove, sem hafa verið áberandi í kosningabaráttu Brexit-liða, hafa hvatt hann til að ana ekki að neinu. Þeir hafa þó einnig sagt að þeir vilji að vissar breytingar verði strax gerðar, m.a. að vald dómara Evrópusambandsins gagnvart Bretum verði takmarkað og að frjálsu flæði verkafólks til landsins verði settar hömlur.

Nigel Farage formaður UKIP fagnar niðurstöðum þjóðaratkvæðagreiðslunnar.
Nigel Farage formaður UKIP fagnar niðurstöðum þjóðaratkvæðagreiðslunnar. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert