Evrópskir andstæðingar ESB fagna úrslitunum

Marine Le Pen, formaður frönsku þjóðfylkingarinnar, vill þjóðaratkvæðagreiðslu fyrir Frakka.
Marine Le Pen, formaður frönsku þjóðfylkingarinnar, vill þjóðaratkvæðagreiðslu fyrir Frakka. AFP

Andstæðingar Evrópusambandsins í öðrum ríkjum ESB fögnuðu í dag úrslitum þjóðaratkvæðagreiðslunnar þar sem 51,9% Breta kusu að segja skilið við Evrópusambandið og krefjast nú margir þeirra þjóðaratkvæðagreiðslu heimafyrir. Að sögn AFP-fréttastofunnar eykur þetta áhyggjur af því hvort samheldni aðildarríkja ESB muni halda eftir úrslitin.

„Sigur fyrir frelsi. Eins og ég hef beðið um árum saman verðum við að fá sams konar þjóðaratkvæðagreiðslu í Frakklandi og öðrum ríkjum ESB,“ skrifaði Marine Le Pen, formaður frönsku þjóðfylkingarinnar, í Twitter-skilaboðum eftir að úrslit kosninganna lágu fyrir.

Endanleg úrslit þjóðaratkvæðagreiðslunnar sýna að 51,9% Breta eru hlynnt því að Bretland gangi úr ESB en 48,1% vilja tilheyra sambandinu áfram.

Vill Nexit fyrir Hollendinga

Í Hollandi, sem líkt og Frakkland er eitt af sex stofnríkjum ESB, óskaði þingmaðurinn Geert Wilders, sem er andsnúin íslam og innflytjendum, Bretum til hamingju með „sjálfstæðisdaginn“.

Hollendingar eiga líka skilið þjóðaratkvæðagreiðslu. Frelsisflokkurinn krefst núna þjóðaratkvæðagreiðslu um Nexit, um útgöngu Hollendinga,“ sagði í yfirlýsingu frá Wilders.

Næstu þingkosningar verða haldnar í Hollandi á næsta ári en skoðanakannanir hafa sýnt aukinn stuðning við Frelsisflokkinn í kjölfar vaxandi flóttamannavanda í Evrópu.

Wilders hét því að yrði hann kjörinn forsætisráðherra á næsta ári fái Hollendingar að kjósa um ESB-aðild sína.

Geert Wilders hefur heitið því að Hollendingar fái að kjósa …
Geert Wilders hefur heitið því að Hollendingar fái að kjósa um veru sína í ESB, verði hann forsætisráðherra eftir næstu þingkosningar. AFP

„Fylgi ekki þeirri hættulegu leið“

Vaxandi áhyggjur eru innan Evrópusambandsins af að úrsögn Breta muni valda dómínóáhrifum og ógni þar með styrk sambandsins.

Donald Tusk, forseti leiðtogaráðs Evrópusambandsins, sagi aðildarríki ESB staðráðin í að halda einingu sinni.

Forseti Evrópuþingsins Martin Schulz sagði að hann myndi ræða við Angelu Merkel, kanslara Þýskalands, um hvernig megi forðast keðjuverkun þess að önnur ESB ríki fylgi fordæmi Breta.

Hann kvaðst þó öruggur um að svo yrði ekki. ESB væri stærsta markaðssvæði í heimi og „Bretland er búið að skera á tengsl sín við þann markað,“ sagði Schulz. „Það mun hafa afleiðingar í för með sér og ég tel ekki að önnur ríki muni finna sig hvött til að fylgja þeirri hættulegu leið.“

Ítalski þingmaðurinn Matteo Salvini sagði Ítali eiga að fylgja fordæmi Breta. „Skál fyrir hugrekki frjálsra borgara,“ sagði Salvini í Twitter-skilaboðum sínum. „Takk Bretland, nú er röðin komin að okkur #Brexit.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert