Lundúnir lýsi yfir sjálfstæði

Sadiq Khan, borgarstjóri Lundúna.
Sadiq Khan, borgarstjóri Lundúna. AFP

Yfir þrjátíu þúsund manns hafa skrifað undir áskorun til Sadiq Khan, borgarstjóra Lundúna, um að borgin lýsi yfir sjálfstæði frá Bretlandi.

Hátt í 60% Lundúnabúa vill að Bretar verði áfram í Evrópusambandinu. 52% Breta kusu að ganga úr sambandinu í þjóðaratkvæðagreiðslunni í gær, en 48% vildu vera áfram.

James O'Malley, sem stendur fyrir undirskriftasöfnuninni, segir að borgin sé „heimsborg“ og eigi áfram að vera í hjarta Evrópu. Hann segist vera mikill aðdáandi Evrópusambandsins og einfaldlega hafa fengið nóg þegar hann sá úrslit þjóðaratkvæðagreiðslunnar. 

Undirskriftasöfnunin hafi gengið vonum framar. Ljóst sé að margir vilji, líkt og hann, áfram búa í alþjóðlegri stórborg.

Khan borgarstjóri sagði í morgun mikilvægt að rödd borgarinnar heyrðist í komandi samningaviðræðum breskra stjórnvalda við Evrópusambandið.

„Við munum áfram horfa út á við og eiga í viðskiptum við allan heiminn, þar á meðal Evrópusambandið,“ sagði hann. Sagði hann alla Evrópumenn sem búa í Lundúnum velkomna í borginni.

„Sem borg erum við þakk­lát fyr­ir ykk­ar gríðarlega fram­lag og það mun ekki breyt­ast í ljósi þess­ar­ar at­kvæðagreiðslu,“ skrifaði Khan á Face­book-síðu sína.

Undirskriftasöfnunin

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert