Sækja líkin eftir að skip hvolfdi

Verkefnið er eitt það stærsta sinnar tegundar. Um 800 flóttamenn …
Verkefnið er eitt það stærsta sinnar tegundar. Um 800 flóttamenn eru taldir hafa drukknað á skipinu. AFP

Ítalska landhelgisgæslan hefur nú hafist handa við að endurheimta lík um 800 flóttamanna sem drukknuðu í apríl í fyrra þegar fiskiskip hvolfdi á Miðjarðarhafinu á leið frá Líbýu til Ítalíu.

Hefur dráttarskip nú dregið skipið á grynnra dýpi og vinna kafarar nú að því að rannsaka hvað olli slysinu sem varð svo afar mannskætt. Liggur skipið nú á botni hafnarinnar í Augustu á Sikiley í sérstökum kæligámi. Verður farið með líkin í nærliggjandi líkhus þegar þau verða sótt eitt af öðru úr skipinu.

Eru vonir bundnar við að hægt verði að ákvarða nákvæman fjölda látinna og jafnvel bera kennsl á hina látnu.

„Þetta er eitt stærsta verkefnið okkar af þessari tegund til þessa,“ segir Cristina Cattaneo sem leiðir teymi 50 lækna sem vinna að verkefninu. „Við búumst við að finna á milli 400 og 600 lík,“ bætir Cattaneo við.

Skipið var sótt af um 380 metra dýpi og er …
Skipið var sótt af um 380 metra dýpi og er nú í sérstökum kæligámi í Augustu á Sikiley. AFP

Aðeins 28 flóttamenn um borð í skipinu eru sagðir hafa lifað af slysið. Skipið sigldi á annað skip úti á hafi, sem varð til þess að það hvolfdi. Sumum tókst að stökkva út í hafið, og var bjargað þaðan. Öðrum tókst að stökkva yfir á hitt skipið sem fiskiskipið sigldi á, og bjargast þannig.

Aðeins í þessari viku hafa um 1200 manns látið lífið á leið sinni yfir Miðjarðarhafið. Ítalir eru enn í vanda við að bjarga flóttamönnum á leið þeirra yfir hafið, þrátt fyrir aðstoð Evrópusambandsins. Telja Ítalir að stórauka verði aðstoðina á Miðjarðarhafi til að ráða við fjöldann sem reynir að komast þar yfir á ári hverju. Árið 2015 eru um 150 þúsund flóttamenn sagðir hafa ferðast yfir hafið til Ítalíu.

Sjá frétt The Guardian.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert