Gefi Bretum sanngjarnan samning

Jens Weidmann, bankastjóri Bundesbank.
Jens Weidmann, bankastjóri Bundesbank. AFP

Jens Weidmann, bankastjóri Bundesbank, þýska seðlabankans, segir að Evrópusambandið eigi að gefa Bretum sanngjarnan samning til þess að lágmarka efnahagslegan kostnað af útgöngu landsins úr sambandinu. 

Leiðtogar sambandsins eigi jafnframt ekki að tefja ferlið, heldur að flýta því eins og kostur er.

Hann sagði í ræðu í dag að það væri hvorki í hag Breta né Evrópusambandsins að koma upp háum tollmúrum sín á milli.

„En Evrópusambandið ætti heldur ekki að veita Bretum betri meðferð en Svisslendingum og Norðmönnum,“ bætti hann við.

Weidmann sagði að þó svo að útganga Breta úr sambandinu myndi líklegast halda aftur af hagvexti á evrusvæðinu og eins draga úr hagnaði evrópskra banka, þá væri fyrst og fremst um að ræða pólitíska krísu. Þess vegna væri engin þörf á frekari lausafjárstuðningi af hálfu Evrópska seðlabankans. 

Hlutabréfavísitölur um allan heim hríðféllu í kjölfar úrslita þjóðaratkvæðagreiðslunnar í síðustu viku og kölluðu margir fjárfestar eftir því að Evrópski seðlabankinn yki lausafé á fjármálamörkuðum.

„Þetta er pólitísk krísa sem verður að leysa á pólitískan hátt.“ Efaðist hann um að frekari aðgerðir seðlabanka gætu hjálpað til.

Hann sagði að Bretar væru að gera mistök með því að yfirgefa Evrópusambandið, en í útgöngu þeirra fælist tækifæri fyrir þýsku borgina Frankfurt til þess að verða enn stærri fjármálamiðstöð. Þýsk stjórnvöld yrðu að grípa til aðgerða til þess að laða að fyrirtæki til landsins.

Þrátt fyrir að hlutabréfamarkaðir hefðu jafnað sig eftir skellinn í lok síðustu viku, þá benti Weidmann á að aukin óvissa væri yfirvofandi. Hún gæti haft slæm áhrif á fjárhagsstöðu evrópskra banka.

Frétt Reuters

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert