Skotinn af lögreglu á rauðu ljósi

Lögreglan beinir byssu sinni að manninum.
Lögreglan beinir byssu sinni að manninum. Ljósmynd/Youtube

Þeldökkur maður var skotinn til bana af lögreglunni í Minnesota í Bandaríkjunum er hann sat í bíl sínum á rauðu ljósi. Kærastan hans greindi frá því í beinni útsendingu á Facebook, skömmu eftir atvikið, að hann hafi ætlað að ná í ökuskírteinið sitt þegar hann var skotinn.

„Þið skutið hann fjórum skotum. Hann var bara að ná í ökuskírteinið sitt,“ sagði konan, sem er sögð heita Diamond Reynolds, að því er kom fram á BBC

Maðurinn hét Philando Castile. Hann var 32 ára og lést af sárum sínum á sjúkrahúsi. Atvikið átti sér stað í Falcon Heights, sem er úthverfi St. Paul, höfuðborgar Minnesota. Þar sést Castile útataður í blóði sitja í bílnum við hlið kærustu sinnar eftir að hafa verið skotinn í höndina. Fyrir utan bílinn stendur lögreglumaður sem beinir byssu sinni að honum. 

Castile hafði áður greint lögreglunni frá því að hann væri með byssuleyfi og að hann væri með byssu í fórum sínum. Bíllinn var stöðvaður vegna þess að afturljósið var brotið. 

Stutt er síðan annar þeldökkur maður, Alton Sterling, var skotinn til bana af lögreglunni í Baton Rouge í bandaríska ríkinu Louisiana. Þar hafa mikil mótmæli átt sér stað. 

Rétt er að vara við myndbandinu sem fylgir fréttinni:

Konan greinir frá atvikinu í myndbandinu.
Konan greinir frá atvikinu í myndbandinu. Ljósmynd/Youtube
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert