„Við fæðumst með skotmark á bakinu“

Mótmæli í Baton Rouge þar sem Alton Sterling var skotinn …
Mótmæli í Baton Rouge þar sem Alton Sterling var skotinn til bana. AFP

Hávær mótmæli hafa staðið yfir í Louisiana síðan á þriðjudag, þegar þeldökkur maður, Alton Sterling, var skotinn til bana af lögreglumanni. Í gærkvöldi, aðeins sólarhring eftir að Sterling lést, var annar þeldökkur maður skotinn til bana af lögreglu, þá í Minnesota.

Eins og mbl.is greindi frá í morgun lést hinn 32 ára gamli Philando Castile af sárum sínum á sjúkrahúsi, eftir að hafa verið skotinn þar sem hann sat í bíl sínum á rauðu ljósi ásamt kærustu sinni og fjögurra ára dóttur þeirra. Kærasta hans greindi frá atvikinu í beinni útsendingu á Facebook og sagði hann hafa ætlað að ná í ökuskírteinið sitt þegar hann var skotinn.

Fjölmargir hafa tjáð sig á Twitter undir myllumerkjunum #AltonSterling, #PhilandoCastile og #BlackLivesMatter en lögregluofbeldi gegn þeldökkum hefur verið í sérstökum brennidepli síðan hvítur lögreglumaður skaut Michael Brown í bænum Ferguson árið 2014 og hreyfingin Black Lives Matter varð til.

Var snúinn niður og skotinn

Sterling var skotinn til bana fyrir utan verslun í Louisiana á miðvikudag, en hann seldi geisladiska fyrir utan verslunina. Lögregla kom á svæðið, þar sem borist hafði tilkynning um að hann væri vopnaður, og var hann snúinn niður á jörðina af lögreglumönnum sem mættu á svæðið. Þeir skutu hann svo til bana þar sem þeir héldu honum niðri.

Lögregluþjónunum sem skutu Sterling hefur verið vikið tímabundið frá störfum en málið hefur vakið mikla reiði í Bandaríkjunum.

Var að sækja ökuskírteinið þegar hann var skotinn

Castile var hins vegar ekki vopnaður þegar hann var skotinn til bana, en hann hafði þó tilkynnt lögregluþjóninum að hann væri með byssuleyfi og væri með byssu í bílnum. Hann hafði verið stöðvaður vegna þess að afturljósið var brotið og ætlaði að sækja ökuskírteini sitt þegar hann var skotinn.

At­vikið átti sér stað í Falcon Heig­hts, sem er út­hverfi St. Paul, höfuðborg­ar Minnesota. Í myndbandi sem kærasta hans deildi sést Castile útataður í blóði sitja í bíln­um við hlið kær­ustu sinn­ar eft­ir að hafa verið skot­inn í hönd­ina. Fyr­ir utan bíl­inn stend­ur lög­reglumaður sem bein­ir byssu sinni að hon­um. 

Samkvæmt upplýsingum sem koma fram í frétt breska ríkisútvarpsins voru 1.152 skotnir til bana af lögreglu árið 2015 í Bandaríkjunum, þar af voru 30% þeldökkir, þrátt fyrir að aðeins 13% Bandaríkjamanna séu þeldökkir. Þá kemur fram að í 97% tilvika hafi lögregluþjónarnir ekki verið ákærðir.

Frétt mbl.is: Skotinn til bana af lögreglu á rauðu ljósi

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert