Telur sig hæfari því hún er móðir

Theresa May (t.v.) og Andrea Leadsom (t.h.) keppast um embætti …
Theresa May (t.v.) og Andrea Leadsom (t.h.) keppast um embætti formanns Íhaldsflokksins og forsætisráðherra Bretlands. AFP

Andrea Leadsom telur sig hæfari en Theresa May til að verða næsti formaður Íhaldsflokksins og þar með forsætisráðherra vegna þess að hún er móðir, ólíkt keppinauti sínum. Ummælin hafa vakið harðar deilur en Leadsom hefur skellt skuldinni á blaðamanninn sem tók viðtalið.

The Times hafði eftir Leadsom að sem móðir þriggja barna hefði hún „raunverulegra hagsmuna að gæta“ í framtíð Bretlands. Fyrirsögn blaðsins á forsíðu var „Að vera móðir gefur mér forskot á May – Leadsom“.

Í viðtalinu var jafnframt haft eftir Leadsom að May „á mögulega frænkur, frændur, fullt af fólki“.

„En ég á börn sem munu eignast börn sem verða beinn hluti af því sem gerist næst.“

Býður við vinnubrögðum blaðamannsins

Eftir að viðtalið birtist á prenti og vakti mikla reiði fordæmdi Leadsom The Times fyrir vinnubrögð sín. Henni byði við því hvernig viðtalið hafi verið sett fram.

„Í löngu viðtali í gær var ég ítrekað spurð um börnin mín og ég gerði það ítrekað ljóst að ég vildi á engan hátt gera þau að hluta af kosningabaráttu minni,“ sagði orkumálaráðherrann. 

Blaðamaður Times, Rachel Sylvester, sagði hins vegar að greinin hafi verið skrifuð af sanngirni og að ofsafengin viðbrögð Leadsom kæmu henni í opna skjöldu.

„Ég spurði hana hreint út: „Hver er munurinn á þér og Theresu May?“ Hún sagði: „Efnahagsleg samkeppnisfærni og fjölskyldan.“ Henni finnst greinilega að það sé stór kostur við sig,“ segir Sylvester.

Hvorki Theresa May né David Cameron, fráfarandi forsætisráðherra og formaður Íhaldsflokksins, hafa viljað tjá sig um ummæli Leadsom.

Frétt BBC

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert