Assad telur Rússa ekki vilja sig burt

Bashar al-Assad Sýrlandsforseti.
Bashar al-Assad Sýrlandsforseti. AFP

Bashar al-Assad Sýrlandsforseti segir rússnesk stjórnvöld ekki hafa nefnt þann möguleika að hann stígi til hliðar sem forseti. Hann sagði að einungis sýrlenska þjóðin myndi ákveða hvenær það myndi verða. BBC greinir frá þessu.

Rússar hafa staðið við bakið á Assad, en Bandaríkin hafa hins vegar sakað hann um að bera ábyrgð á grimmdarverkum í Sýrlandi og segja að valdaskipti verði að eiga sér stað til að binda enda á óöldina sem ríkt hefur í landinu.  

Ummæli Assad féllu nú þegar John Kerry, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, heimsækir Moskvu, til að ræða málefni Sýrlands við rússnesk yfirvöld. Sagðist Assad ekki hafa áhyggjur af því að niðurstaða viðræðnanna yrði að hann yrði að víkja úr embætti, þar sem rússnesk stjórnmál byggðust ekki á samningum, heldur gildum.

Þá sagði hann að sýrlensk stjórnvöld ættu eftir að endurheimta fulla stjórn á landinu á næstu mánuðum og bætti því við að hryðjuverkamenn hefðu fyrst gefið eftir þegar aðstoð Rússa barst. Bandaríkin legðu ekki raunverulega áherslu á að eiga við Ríki íslams.

„Við vildum sigra þessa hryðjuverkamenn, á meðan Bandaríkin vildu stýra þeim til að steypa sýrlenskum stjórnvöldum af stóli.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert