Boris Johnson vill að Assad fari frá

Boris Johnson, utanríkisráðherra Bretlands.
Boris Johnson, utanríkisráðherra Bretlands. AFP

Boris Johnson, nýr utanríkisráðherra Bretlands, kallaði eftir því í dag að stjórnvöld í Rússlandi og fleiri ríkjum krefðust þess að Bashar al-Assad, forseti Sýrlands, stigi til hliðar.

Johnson mun funda með utanríkisráðherrum Þýskalands, Frakklands og Ítalíu í Lundúnum í dag en borgarastyrjöldin í Sýrlandi verður meðal dagskrárefna.

„Ég mun láta skýrlega í ljós þá skoðun mína að endir verður ekki bundinn á þjáningar Sýrlendinga á meðan Assad verður áfram við völd. Alþjóðasamfélagið, þar á meðal Rússland, verður að sameinast um þetta,“ segir Johnson.

Theresa May, nýr forsætisráðherra Bretlands, skipaði Johnson nokkuð óvænt í embættið í síðustu viku.

Rúss­ar og Banda­ríkja­menn eru að nafn­inu til leiðtog­ar alþjóðlegra aðgerða til þess að fá stjórn Bash­ar al-Assad, for­seta Sýr­lands, að samn­inga­borðinu með upp­reisn­ar­mönn­um en þeir hafa bar­ist hart síðustu fimm árin.

Blóðbaðið í land­inu held­ur þó áfram á meðan hvert vopna­hléið á eft­ir öðru er van­virt.

Bandaríkjamenn hafa krafist þess að al-Assad stígi til hliðar en Rússar hafa ekki viljað ljá máls á því. Þó herma heimildir fréttastofu Reuters að rússnesk stjórnvöld séu reiðubúin til þess að fallast á brotthvarf Assads, svo lengi sem sýrlenska ríkisstjórnin haldi velli.

Friðarviðræður milli stríðandi afla í Sýrlandi runnu út í sandinn í lok aprílmánaðar, en þó er talið að þær hefjist á nýjan leik í næsta mánuði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert