Ísraelar samþykktu umdeild lög

Benjamin Netanyahu, forsætisráðherra Ísraels.
Benjamin Netanyahu, forsætisráðherra Ísraels. AFP

Ísraelska þingið hefur samþykkt lög sem gera því kleift að kæra þingmenn sem hvetja til kynþáttafordóma eða styðja vopnuð átök gegn ríkinu og víkja þeim frá störfum.

Lögin þykja umdeild en Benjamín Netanyahu, forsætisráðherra Ísraels, sagði þau koma í veg fyrir að sú „fáranlega“ staða kæmi upp að einhver sem „styddi hryðjuverk“ gæti sest á þing.

Gagnrýnendur laganna segja þau hins vegar ólýðræðisleg og beinast fyrst og fremst að arabískum þingmönnum.

Samkvæmt lögunum þurfa 90 af 120 þingmönnum landsins að samþykkja brottrekstur þingmanns.

62 þingmenn samþykktu lögin en 47 greiddu atkvæði gegn þeim.

Mannréttindasamtök hafa gagnrýnt lögin harðlega og segja þau skaða grunnstoðir lýðræðisins og tjáningarfrelsið.

Aðeins vika er síðan önnur umdeild lög voru samþykkt á þinginu. Samkvæmt þeim þurfa góðgerðasamtök að greina opinberlega frá erlendri fjármögnun. Evrópusambandið gagnrýndi lögin og sagði þau geta grafið undan lýðræði og tjáningarfrelsi í Ísrael.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert