Sprengjumaður í Brussel

Belgískir lögreglumenn í Brussel.
Belgískir lögreglumenn í Brussel. AFP

Belgísk lögregla hefur umkringt hugsanlegan sprengjumann í miðborg Brussel. Lögreglu var tilkynnt um manninn, sem sagður er hafa hagað sér undarlega og klæðst þykkri kápu sem vírar stóðu út úr, en um 30 stiga hiti er í Brussel í dag. 

Sprengjusveit er á staðnum, en verslanir hafa verið rýmdar í nágrenninu og nokkrum götum lokað. BBC segir myndir af vettvangi sýna mann á hnjánum með hendur upp í loft og lögreglu beina byssum sínum að honum.

Lögreglu segist hafa stjórn á ástandinu en maðurinn hefur ekki verið handtekinn. Í samtali við belgíska sjónvarpsstöð segir Christian De Coninck frá lögreglunni í Brussel, að beðið sé eftir upplýsingum frá sprengjusveitinni. „Við tökum enga áhættu. Maðurinn var stöðvaður og er haldið í fjarlægð.“

Atvikið nú kemur degi fyrir þjóðhátíðardag Belga og hefur öryggisgæsla því verið aukin í höfuðborginni, þar sem 32 létust í sprengjuárásum fyrr á árinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert