12 ára „hryðjuverkamenn“ fangelsaðir

Hópur Palestínumanna syrgir Aref Jaradat, 22 ára Palestínumann sem lést …
Hópur Palestínumanna syrgir Aref Jaradat, 22 ára Palestínumann sem lést eftir átök við ísraelsku lögregluna í júní. AFP

Ísraelsk stjórnvöld hafa samþykkt lög sem gefa leyfi fyrir því að börn, allt niður í 12 ára gömul, verði fangelsuð hafi þau verið fundin sek um „hryðjuverkaafbrot“.

Stjórnvöld segja ástæðuna fyrir lögunum vera alvarlegar árásir undanfarinna mánaða.

Samkvæmt lögunum er núna hægt að fangelsa börn fyrir morð, morðtilraun eða manndráp, jafnvel þótt þau séu undir fjórtán ára aldri.

„Fyrir þá sem eru myrtir með hnífsstungu í hjartað breytir engu máli hvort barnið er 12 eða 15 ára,“ sagði þingmaðurinn Anat Berko, sem kemur úr Likud-flokknum, flokki Benjamins Netanyahu, forsætisráðherra Ísraels.

Starfsmenn lögreglunnar rannsaka veitingastað þar sem fjórir voru drepnir og …
Starfsmenn lögreglunnar rannsaka veitingastað þar sem fjórir voru drepnir og fimm særðust í skotárás tveggja Palestínumanna í Tel Aviv í júní. AFP

Fjölmargir fallið síðan í október

Frá því í október hafa að minnsta kosti 218 Palestínumenn, 34 Ísraelar, tveir Bandaríkjamenn, einn Erítreumaður og einn Súdani verið drepnir í átökum á svæðum Palestínumanna og í Ísrael.

Að sögn ísraelskra stjórnvalda voru flestir Palestínumannanna drepnir er þeir gerðu árásir með hnífum, byssum eða bílum.

Margir árásarmannanna voru ungt fólk, þar á meðal táningar.

Benjamin Netanyahu, forsætisráðherra Ísraels.
Benjamin Netanyahu, forsætisráðherra Ísraels. AFP

Engin miskunn

„Unglingar eins og Ahmed Manasra sem reyna að drepa gyðinga fá enga miskunn frammi fyrir dómstólum,“ sagði Ayelet Shaked, dómsmálaráðherra Ísraels.

Manasra, sem er 14 ára Palestínumaður, var fundinn sekur í maí um að hafa reynt að stinga tvo Ísraela til bana í október síðastliðnum. Hann var 13 ára þegar hann gerði árásina en dómur hefur ekki fallið í máli hans.

Mannréttindasamtök mótmæla

Ísraelsku mannréttindasamtökin B´Tselem gagnrýndu lögin og meðhöndlun Ísraela á ungmennum frá Palestínu. „Í stað þess að senda þau í fangelsi ættu Ísraelar að senda þau í skóla þar sem þau geta vaxið úr grasi frjáls og með reisn án þess að búa við hernám,“ sagði í yfirlýsingu þeirra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert