Sektaðir fyrir að spila Pokemon undir stýri

AFP

Tæplega 350 ökumenn í Taívan voru sektaðir um helgina fyrir að spila Pokemon Go í símum sínum undir stýri. Að sjálfsögðu er Pokemon Go-æði á eyjunni líkt og víðast hvar annars staðar í heiminum.

Flestir þeirra sem voru sektaðir voru á vélhjólum að sögn lögreglunnar en yfirvöld hafa beðið fólk um að fara varlega og gleyma sér ekki alveg við leitina að Pokemon-verum og forðast að lenda í slysum. „Veiðið sjaldséðar verur en forðist slysin,“ skrifaði forsætisráðherra Taívan, Lin Chuan, á Facebook-síðu ríkisstjórnarinnar. 

Ökumenn geta átt von á sekt upp á 11.400 krónur ef þeir eru gripnir í símanum en bílstjórar vélhjóla þurfa að greiða þriðjung fjárhæðarinnar fyrir sama brot. Tvítugur maður meiddist á hné á eyjunni þegar hann datt af vélhjóli sínu þegar hann var að eltast við Pokemon á hjóli sínu. Listasafn Taívan hefur ákveðið að banna gestum safnsins að spila Pokemon Go inni í sýningarsölum sínum enda safnaeignin gríðarlega verðmæt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert