Þjóðaratkvæðagreiðsla mun fara fram á Ítalíu

Matteo Renzi, forsætisráðherra Ítalíu.
Matteo Renzi, forsætisráðherra Ítalíu. AFP

Matteo Renzi, forsætisráðherra Ítalíu, hefur nú 60 daga til þess að ákveða dagsetningu þjóðaratkvæðagreiðslunnar um fyrirhugaðar stjórnarskrárbreytingar í landinu. Áfrýjunardómstóll í landinu ákvað í dag að þjóðaratkvæðagreiðslan stæðist lög og er ekkert því til fyrirstöðu að atkvæðagreiðslan fari fram.

Renzi hefur sjálfur lagt pólitíska framtíð ríkisstjórnar hans undir í atkvæðagreiðslunni. Fari svo að ítalska þjóðin hafni breytingunum mun hann segja af sér. Mat sem pólitíska ráðgjafafyrirtækið Eurasia Group framkvæmdi í síðasta mánuði sýndi að 60% líkur væru á að þjóðin myndi samþykkja breytingarnar en dregið hefur úr stuðningi við breytingarnar frá því í vor og því líklegt að atkvæðin skiptist ansi jafnt á „já“ og „nei“.

Sjá frétt mbl.is. Matteo Renzi leggur allt undir

Breytingarnar sem Renzi vill gera á stjórnarskránni fela í sér breytingu á fyrirkomulagi á kjöri til efri og neðri deildar ítalska þingsins. Er ætlunin að með breytingunum skili niðurstöður kosninga skýrari niðurstöðum. Erfitt hefur reynst að mynda ríkisstjórnir í landinu á undanförnum árum og er meira en áratugur frá því að ríkisstjórn í landinu sat heilt kjörtímabil. 

Sjá frétt The Local.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert