Vilja frekar fara svissnesku leiðina

Theresa May, forsætisráðherra Bretlands.
Theresa May, forsætisráðherra Bretlands. AFP

Bresku viðskiptalífi hugnast betur framtíðartengsl við Evrópusambandið í ætt við það fyrirkomulag sem Sviss býr við frekar en Ísland og Noregur. Viðskiptatengsl Íslendinga og Norðmanna við sambandið eru grundvölluð á samningnum um Evrópska efnahagssvæðið (EES). Svisslendingar höfnuðu hins vegar aðild að EES-samningnum fyrir tæpum aldarfjórðungi og hafa síðan gert fjölda tvíhliða samninga við Evrópusambandið.

Fram kemur í frétt viðskiptablaðsins Financial Times að breskt viðskiptalíf telji EES-samninginn ekki fýsilegan fyrir tengsl Bretlands við Evrópusambandið eftir að landið segir skilið við sambandið. Bæði af pólitískum og praktískum ástæðum. Þeir hafi fallið frá þeirri áherslu sinni að tryggja verði áframhaldandi aðild Bretlands að innri markaði Evrópusambandsins og horfi nú til tvíhliða samninga Svisslendinga sem mögulegrar fyrirmyndar.

Frétt mbl.is: Vilja ekki EES-samninginn

Svissneska leiðin svonefnda er í grunninn byggð á fríverslunarsamningi EFTA við Efnahagsbandalag Evrópu, forvera Evrópusambandsins. Breskt viðskiptalíf telur þó ekki rétt að taka fyrirkomulag Svisslendinga óbreytt upp heldur verði stefnt að tvíhliða viðskiptasamningi við sambandið sem feli í sér eins greiðan aðgang að innri markaði þess og mögulegt sé. Bæði Bretland og Evrópusambandið hefðu ríka hagsmuni af því. Hins vegar yrði einnig að tryggja bresku viðskiptalífi aðlögunartíma til þess að venjast breyttum aðstæðum.

Bresk stjórnvöld hafa ekki upplýst hvaða leið þau ætli að leggja áherslu á í fyrirhuguðum viðræðum við Evrópusambandið um úrsögn Bretlands úr sambandinu í kjölfar þjóðaratkvæðagreiðslu í júní þar sem meirihluti kjósenda greiddi atkvæði með því að segja skilið við það. Fréttir herma hins vegar að breskir ráðamenn, líkt og breskt viðskiptalíf, séu orðnir afhuga EES-leiðinni eftir að hafa haft hana til skoðunar.

AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert