49% telja innflytjendur of marga

Framkvæmdastjóri Ipsos í Frakklandi segist telja að tíðar myndbirtingar af …
Framkvæmdastjóri Ipsos í Frakklandi segist telja að tíðar myndbirtingar af flóttafólki við strendur Evrópu hafi aukið ótta fólks við óviðráðanlega fólksflutninga. Stærsta áhyggjuefnið sé að flóttafólkið aðlagist ekki þeim samfélögum sem það festir rætur í. AFP

Fólk víða um heim hefur síauknar áhyggjur af fjölgun innflytjenda en fólksflutningar hafa vart verið meiri frá seinni heimsstyrjöld en þeir eru í dag. Að minnsta kosti sex af hverjum tíu Frökkum og Belgum telja aðflutning fólks hafa haft „neikvæð áhrif“ samkvæmt rannsóknarstofnuninni Ipsos.

Svipaða sögu er að segja af Rússum, Ungverjum og Ítölum, en á Ítalíu hafa yfirvöld þurft að fást við mikinn fjölda flóttafólks frá Mið-Austurlöndum og Afríku.

Heilt á litið sögðu 49% aðspurðra í 22 löndum að innflytjendur væru of margir og 46% sögðust þeirrar skoðunar að aðflutningur fólks leiddi til þess að heimaland þeirra breyttist til hins verra.

Japanar voru síst líklegir til að segja að innflytjendur væru of margir en aðeins 12% svöruðu á þá leið. Þá voru Brasilíumenn síst líklegir til að finnast land sitt hafa breyst til hins verra vegna aðfluttra, en 23% sögðust þeirrar skoðunar.

Það kom hins vegar í ljóst að afstaða Breta til innflytjenda hefur batnað en 35% sögðu að aðflutningur fólks hefði reynst jákvæður fyrir Bretland, samanborið við 19% árið 2011.

Sex af hverjum tíu sem svöruðu könnuninni sögðust hafa áhyggjur af því að hryðjuverkamenn leyndust meðal flóttafólks og fjórir af hverjum tíu sögðust vilja loka landamærunum alfarið.

Þátttakendur voru 16.040 en könnunin var framkvæmd í Argentínu, Ástralíu, Belgíu, Brasilíu, Kanada, Frakklandi, Bretlandi, Þýskalandi, Ungverjalandi, Indlandi, Ítalíu, Japan, Mexíkó, Póllandi, Rússlandi, Sádi-Arabíu, Suður-Afríku, Suður-Kóreu, Spáni, Svíþjóð, Tyrklandi og Bandaríkjunum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert