Vopnahlé hafið í Kólumbíu

Vopnahlé hófst á miðnætti í Kólumbíu á milli stjórnvalda í landinu og skæruliðahreyfingarinnar FARC. Þar með hefur endi verið bundinn á 52 ára átök í Kólumbíu.

Juan Manuel Santos, forseti landsins, og Timmoleon Jimenz, leiðtogi FARC, fyrirskipuðu vopnahléið.

„Núna, 29. ágúst, hefst nýtt skeið í sögu Kólumbíu. Við þöggum niður í byssunum.  „STRÍÐINU VIÐ FARC ER LOKIÐ!“, skrifaði Santos á Twitter-síðu sína einni mínútu eftir miðnætti.

Á Twitter síðu FARC stóð einfaldlega: „Frá og með þessari stundu hefst tvíhliða vopnahlé“.

Hundruð þúsunda Kólumbíumanna hafa látið lífi frá árinu 1964 þegar uppreisnarherir og gengi hófu baráttu í frumskógum landsins.

Santos og Jimenez ætla að undirrita loka friðarsamning einhvern tímann á dögunum 20. til 26. september.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert