Assange yfirheyrður 17. október

Julian Assange hefur dvalið í sendiráði Ekvador í Lundúnum í …
Julian Assange hefur dvalið í sendiráði Ekvador í Lundúnum í fjögur ár. AFP

Saksóknarar frá Ekvador og Svíþjóð munu yfirheyra Julian Assange hinn 17. október næstkomandi, í sendiráði Ekvador í Lundúnum. Yfirheyrslan verður framkvæmd af fulltrúa Ekvador en sænski yfirsaksóknarinn Ingrid Isgren og rannsóknarlögreglumaður verða viðstödd og mega spyrja spurninga í gegnum kollega sinn.

Í kjölfar yfirheyslunnar verður tekin saman skýrsla sem sænsk yfirvöld fá afhenta en þau munu í framhaldinu ákveða hvort tilefni er til að halda rannsókn á meintum brotum Assange áfram.

Assange hefur verið sakaður um nauðgun, sem á að hafa átt sér stað árið 2010. Hann hefur neitað ásökununum en hefst við í sendiráðinu til að forðast að verða afhentur sænskum yfirvöldum. Hann óttast að verða framseldur frá Svíþjóð til Bandaríkjanna, þar sem rannsókn stendur yfir á starfsemi uppljóstrunarsíðunnar Wikileaks.

Guardian sagði frá.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert