Vopnahlé framlengt um tvo sólarhringa

Sýrlenskur drengur ríður á hestbaki um götur Aleppo, á meðan …
Sýrlenskur drengur ríður á hestbaki um götur Aleppo, á meðan að önnur börn nýta sér kærkomið vopnahléð til leikja á götum úti. AFP

Vopnahléið í Sýrlandi, sem staðið hefur frá því á mánudagskvöld, hefur nú verið framlengt um tvo sólarhringa. Ekkert bólar hins vegar enn á hjálpargögnum sem víða er veruleg þörf á, m.a. í borginni Aleppo þar sem umsátursástand hefur ríkt í langan tíma.

Bandaríska innanríkisráðuneytið tilkynnti seint í gærkvöldi að John Kerry, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, og Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands, hefðu ræðst við og fallist á að framlengja vopnahléið þrátt fyrir stöku tilkynningar um árásir í Sýrlandi. Mark Toner, talsmaður bandaríska innanríkisráðuneytisins, sagði utanríkisráðherrana meta stöðuna þannig að stríðandi fylkingar virtu vopnahléið,  enda hefði ekki verið tilkynnt um mannfall óbreyttra borgara frá því á mánudag.

Enn er þó eftir að koma í framkvæmd þeim mikilvæga þætti vopnahléssamkomulagsins sem kveður á um að unnt verði að koma hjálpargögnum til þeirra svæða þar sem umsátursástand ríkir.

Stjórnarherinn enn á veginum að Aleppo

Áhrif stríðsins hafa verið einna mest í Aleppo þar sem loftárásir og sprengjuregn hafa verið nánast daglegt brauð. Um 250.000 borgarbúar eru innikróaðir af her stjórnarmanna og uppreisnarmanna.

Samkvæmt samkomulaginu á að vera hægt að flytja hjálpargögn til borgarinnar um svonefndan Castello-veg og höfðu Rússar greint frá því að sýrlenski stjórnarherinn hefði ætlað að hefja undanhald sitt frá veginum um kl. sex í morgun að staðartíma.

Sýrlensku mannréttindasamtökin Syrian Observatory for Human Rights, sem staðsett eru í Bretlandi, hafa hins vegar greint frá því nú í morgun að hermenn stjórnarhersins séu enn á Castello-veginum og ekki hefur enn verið send út opinber tilkynning um að herinn sé að draga sig til baka.

Bíða á landamærum Tyrklands

Stjórnvöld í Moskvu hafa sagt sprengjuvörpur á veginum geta hægt á undanhaldi hersins, en Ban Ki-moon, aðalritari Sameinuðu þjóðanna, hefur hvatt stjórnvöld í Bandaríkjunum og Rússlandi til að þrýsta deiluaðila að tryggja öryggi flutningslestar Sameinuðu þjóðanna, sem bíður þess að komast til borgarinnar með hjálpargögn.

„Það skiptir öllu máli að gera nauðsynlegar öryggisráðstafanir þannig að þeir geti haldið áfram för sinni,“ sagði hann. „Ég hef verið að hvetja rússnesk stjórnvöld til að nýta áhrif sín á sýrlensk stjórnvöld og einnig hef ég hvatt Bandaríkjamenn til að tryggja að sýrlenskir uppreisnarherir séu einnig samstarfsfúsir.“

Sameinuðu þjóðirnar hafa vonast til að geta flutt hjálpargögn til íbúa borgarinnar, s.s. mat, lyf, fatnað og leikföng og bíða nú 20 flutningabílar með mánaðarvistir af mat fyrir 40.000 manns við landamæri Tyrklands eftir að geta flutt vistir til Aleppo.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert