Bandaríkin harma loftárásina

Sendiherra Bandaríkjanna hjá Sameinuðu þjóðunum, Samantha Power, harmaði í gærkvöldi loftárás Bandaríkjamanna og bandamanna þeirra á herstöð á vegum sýrlenska hersins í gær. Power sagði málið í rannsókn og ef um sýrlenska herstöð hafi raunverulega verið að ræða hafi ekki verið viljaverk að ráðast á sýrlenska stjórnarherinn.

Rússnesk stjórnvöld kölluðu í gærkvöldi eftir tafarlausum fundi í Öryggisráði Sameinuðu þjóðanna vegna árásarinnar. Bandaríkjamenn hafa sagt að þeir hafi talið sig vera að ráðast á herstöð á vegum hryðjuverkasamtakanna Ríki íslams. Þeir hafi hætt árásinni um leið og upplýsingar hafi borist frá Rússum um eðli skotmarksins.

Talið er að árásin hafi kostað 62 sýrlenska stjórnarhermenn lífið. Power sagði Bandaríkin harma þau mannslíf sem árásin hafi kostað ef um sýrlenska stjórnarhermenn hafi verið að ræða. Árásin var gerð á herstöð í austurhluta Sýrlands skammt frá bænum Deir Ezzor sem er á valdi Ríkis íslams. Rússar hafa krafist skýringar á árásinni.

Power sagði kröfu rússneskra stjórnvalda um fund í Öryggisráðinu sýndarmennsku. Þau ættu frekar að fara fram á fund með sýrlenskum stjórnvöldum og þrýsta á þau að beita sér fyrir friði í Sýrlandi. Sendiherra Rússa, Vitaly Churkin, sakaði Bandaríkjamenn á móti um að brjóta samkomulag um að þeir myndu ekki ráðast á sýrlenska herinn.

Stjórnvöld í Bandaríkjunum og Rússlandi náðu samkomulagi fyrr í þessum mánuði um að beina spjótum sínum sameiginlega að íslömskum uppreisnarmönnum í Sýrlandi. Samkomulagið, sem einnig snýst um samstarf við að koma hjálpargögnum til nauðstaddra, tók gildi síðasta mánudag. Churkin gaf í skyn að loftárás Bandaríkjamanna kynni að ganga af samkomulaginu dauðu.

Fundað verður í Öryggisráðinu um málið í kvöld.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert