Vilhjálmur og Katrín í Kanada

Vilhjálmur Bretaprins og eiginkona hans, Katrín Middleton, hófu átta daga opinbera heimsókn til Kanada í gær. Í ferðinni munu hertogahjónin heimsækja náttúruundur og hitta flóttamenn og frumbyggja.

Með í för eru börn Vilhjálms og Katrínar, Georg og Karlotta, en sá stutti virtist mun áhugasamari um þyrlurnar sem flugu yfir þegar fjölskyldan lenti á flugvellinum í Victoria heldur en hátíðlegar móttökurnar.

Justin Trudeau, forsætisráðherra Kanada, sagði í ávarpi að heimsókn hertogahjónanna nú yrði allólík heimsókn þeirra fyrir fimm árum, þar sem þau væru nú foreldrar tveggja barna.

„Leyfið mér að miðla af eigin reynslu; ef þau líkjast okkar börnum verður áskorun að fá þau aftur um borð í vélina þegar þið heimsækið vesturströndina fallegu.“

Trudeau heimsótti England snemma á þessu ári og hitti þá meðal annarra Elísabetu drottningu.

Vilhjálmur sagðist spenntur fyrir því að hitta það unga fólk sem myndi leiða Kanada næstu áratugina, nú þegar landið fagnaði innan skamms 150 ára afmæli. Þá þakkaði hann Kanadabúum fyrir hlýju sína í garð ömmu sinnar.

Sannkallað „konungsfjölskylduæði“ hefur gripið um sig í Victoria vegna heimsóknarinnar en í dag munu hertogahjónin heimsækja Vancouver.

Hertogafjölskyldan við komuna til Kanada.
Hertogafjölskyldan við komuna til Kanada. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert