Fyrstu flóttabörnin fara til Bretlands

AFP

Fyrsti hópurinn af börnum sem eru á flótta án fylgdar fullorðinna er lagður af stað úr flóttamannabúðunum í Calais í Frakklandi til Bretlands. Þetta staðfesta yfirvöld í Calais en fyrir nokkrum dögum kvartaði franskur ráðherra yfir dugleysi breskra yfirvalda varðandi flóttamannaastoð.

Á þriðja tug barna fá að fara til Bretlands á næstu dögum og í morgun fóru fimm sýrlensk og eitt afganskt barn yfir Ermarsundið. Á morgun fara um tíu börn og svipaður fjöldi á þriðjudag. Börnin eiga öll fjölskyldur í Bretlandi en hafa hingað til ekki fengið að fara yfir landamærin til þess að sameinast fjölskyldum sínum vegna andstöðu breskra yfirvalda.

Börnin hafa líkt og um tíu þúsund aðrir flóttamenn búið við ömurlegar aðstæður í flóttamannabúðum sem nefnast Jungle í útjaðri Calais. Til stendur að jafna búðirnar við jörðu enda aðstæður þar ekki boðlegar. Allt er fólkið að bíða þess að komast til Bretlands en hingað til hafa Bretar ekki viljað taka við því. Flestir flóttamannanna koma frá Afríku en einnig eru þar flóttamenn frá Mið-Austurlöndum og Asíu.

Rauði krossinn í Bretlandi segir að vitað sé um 178 börn í Jungle-búðunum sem eiga rétt á því að sameinast fjölskyldum sínum í Bretlandi þar sem tengsl þeirra hafi verið staðfest. Innanríkisráðherra Bretlands, Amber Rudd, segir að Bretar séu reiðubúnir í samstarf við frönsk yfirvöld varðandi flutning barnanna yfir landamærin en það hafi hingað til strandað á Frökkum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert