Stríðandi fylkingar verndi börnin

Flóttamannabúðir fyrir fólk sem hefur flúið yfirvofandi stríðsátök um borgina …
Flóttamannabúðir fyrir fólk sem hefur flúið yfirvofandi stríðsátök um borgina Mosúl í norðurhluta Íraks. AFP

Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna (UNICEF) hvetur stríðandi fylkingar til að vernda börn þegar boðaðar hernaðaraðgerðir íraska stjórnarhersins til að vinna borgina Mosúl úr höndum Ríkis íslams hefjast. Meira en hálf milljón barna og fjölskyldur þeirra verði í mikilli hættu á næstu vikum.

Stórsókn Írakshers og bandamanna hans til að endurheimta Mosúl vofir yfir en borgin hefur verið á valdi Ríkis íslams í tvö ár. Mosúl er jafnframt síðasta stóra vígi hryðjuverkasamtakanna í Írak. Í yfirlýsingu frá UNICEF kemur fram að stofnunin sé tilbúin með verulegt magn hjálpargagna fyrir 150.000 manns strax og fyrir 350.000 manns á næstu vikum.

„Börnin í Mosúl hafa þegar þjáðst gífurlega undanfarin tvö ár. Mörg þeirra gætu verið neydd að heiman, króast inni á milli stríðandi fylkinga eða lent í skothríð,“ segir Peter Hawkins, fulltrúi UNICEF í Írak.

Barnahjálpin er einnig með teymi í viðbragðsstöðu sem eiga að hjálpa börnum sem eru í sárustu líkamlegu og andlegu neyðinni. Þá er bólusetningarherferð gegn sjúkdómum eins og mislingum og hettusótt sömuleiðis í viðbragðsstöðu.

Hvetur UNICEF stríðandi fylkingar til þess að virða alþjóðleg mannúðarlög svo að börn og fjölskyldur þeirra komist óhultar í gegnum átakatíma sem eru í vændum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert