Kannabis verður löglegt í Kaliforníu

Í Kaliforníu verður heimilt að neyta kannabis.
Í Kaliforníu verður heimilt að neyta kannabis. AFP

Kjósendur í að minnsta kosti þremur ríkjum Bandaríkjanna hafa greitt atkvæði með lögleiðingu marijúana, þar á meðal kjósendur í Kaliforníu. Í Kaliforníu og fjórum öðrum ríkjum var kosið um sölu á kannabis í verslunum en í þremur ríkjum var kosið um heimild til þess að nota kannabis í lækningaskyni.

Auk Kaliforníu var kosið um heimild til sölu á kannabis í Massachusetts, Maine, Arizona og Nevada.  

Í Flórída, Arkansas og Norður-Dakóta var aftur á móti kosið um heimild til þess að nota kannabis í lækningarskyni. Í Montana er síðan kosið um hvort rýmka eigi heimildir um notkun kannabis í lækningaskyni, en þar er þegar heimilt að nota kannabis í ákveðnum tilvikum.

Fögnuðu á nýársdag

Allt bendir til þess að kjósendur í Flórída og Norður-Dakóta hafi samþykkt að heimila kannabis í lækningaskyni miðað við þær tölur sem nú liggja fyrir, samkvæmt frétt Washington Post.

Kalifornía skiptir gríðarlega miklu máli, þar sem um 12% af bandarísku þjóðinni búa þar og ríkið er afar mikilvægt í efnahagslegu samhengi. Þetta gæti haft þau áhrif að alríkisstjórnin endurskoðaði andstöðu sína við að afglæpavæða notkun kannabis í lækningaskyni. 

Kannabisneytendur fögnuðu á nýársdag 2014 þegar Colorado varð fyrsta ríkið í Bandaríkjunum til að heimila sérstökum verslunum að selja marijúana sem vímuefni eða í lækningaskyni. Hálfu ári síðar voru slíkar verslanir opnaðar í Washington-ríki.

Íbúar Colorado og Washington-ríkis samþykktu tillögu um að leyfa sölu á marijúana sem vímuefni, ekki aðeins í lækningaskyni, í almennum atkvæðagreiðslum í nóvember 2012. 
Eins er heimilt að selja kannabis í Alaska, Oregon og í höfuðborginni Washington, DC.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert