Trump verður væntanlega forseti

Milljarðamæringurinn Donald Trump stendur betur að vígi en keppinautur hans, Hillary Clinton, í baráttunni í forsetaembætti Bandaríkjanna. Hann hafði betur í Ohio og einnig í Flórída. Fjármálamarkaðir skjálfa vegna fréttanna og hefur gengi mexíkóska pesósins hrunið.

Þegar fyrstu tölur tóku að berast í nótt virtist Clinton, forsetaframbjóðandi demókrata, stefna í átt að Hvíta húsinu en þegar kjörstöðum á Vesturströndinni var lokað breyttist staðan og ríki sem eru þekkt fyrir að vera repúblikanaríki stóðu með frambjóðanda flokksins, Trump.

Klukkan 3 að íslenskum tíma í nótt var Trump öruggur um 19 ríki, sem skila honum 169 kjörmönnum, og Clinton var örugg með sigur í 11 ríkjum, þar á meðal Virginíu, sem þýðir að hún er með 122 kjörmenn. Það sem nær 270 kjörmönnum fer með sigur af hólmi. 

Flórídaríki skiptir gríðarlega miklu í forsetakosningum í Bandaríkjunum og eru kosningarnar nú þar engin undantekning enda nánast vonlaust að ná kjöri án stuðnings frá ríkinu. Flórída valdi Barack Obama 2008 og 2012 en Bush árið 2000 og þá með aðeins 537 atkvæðum meira en keppinauturinn.

Uppfært klukkan 4.05

Nú virðist sem kjörmenn Flórída, 29 talsins, séu Trumps og það þýðir að Trump er kominn með 201 kjörmann og Clinton 190, samkvæmt frétt Washington Post. Erfitt er að skrá nákvæmlega hversu marga kjörmenn Trump er kominn með, þar sem afar misvísandi upplýsingar er að finna á bandarísku fjölmiðlunum. Það sem er víst er að hann er með betri stöðu en Clinton og það stefnir í sigur repúblikana eftir átta ára valdatíð demókrata í forsetastóli Bandaríkjanna.

Ef Trump fer með sigur af hólmi í Wisconsin: Flórída+Ohio+Norður-Karólína+Iowa+Wisconsin+New Hampshire=273 kjörmenn og sigur.

Ef Trump fer með sigur af hólmi í Michigan: Flórída+Ohio+Norður-Karólína+Iowa+Michigan=275 kjörmenn og sigur.

Uppfært klukkan 4.51

Trump fór með sigur af hólmi í Iowa, en þar er kosið um sex kjörmenn. Eins voru að koma upplýsingar um að íbúar Georgíu hefðu valið hann sem næsta forseta Bandaríkjanna.

Uppfært klukkan 5.35

Ljóst er að Hillary Clinton fór með sigur af hólmi í Nevada. Kjörmennirnir í Nevada eru sex talsins þannig að munurinn á milli hennar og Trumps hefur minnkað lítillega. Miðað við nýjustu tölur er Clinton búin að tryggja sér 215 kjörmenn en Trump 244.

Repúblikanar virðast ætla að fara með sigur af hólmi í báðum þingdeildum þrátt fyrir að mjótt sé á munum í öldungadeildinni.

Uppfært klukkan 6.42

Donald Trump er nánast orðinn öruggur um sigur í forsetakosningunum eftir að tölur bárust frá Pennsylvaniu. Þar voru 20 kjörmenn í húfi og sigur þar þýðir að Trump er kominn með 264 kjörmenn en Clinton er með 215. Það styttist í tölur frá Wisconsin, Michigan og Arizona en Trump þarf aðeins að sigra í einu þeirra til að verða réttkjörinn forseti Bandaríkjanna. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert