„Leiktímanum er lokið“

Marine Le Pen.
Marine Le Pen. AFP

Marine Le Pen, forsetaframbjóðandi Front National í Frakklandi, leggur til að útlensk börn þurfi að greiða fyrir skólagöngu í ríkisskólum í Frakklandi en hingað til hafa börn af erlendum uppruna getað stundað þar nám án þess að greiða þurfi sérstaklega fyrir það. 

Í ræðu sem hún flutti í París í morgun kom fram að hún sé ekkert á móti útlendingum en hún vilji segja þeim að ef þeir komi til Frakklands þá geti þeir ekki vænst þess að hugsað verði um þá. Ef þið komið til lands okkar þá skuluð þið ekki búast við því að hér verði hugsað um ykkur, ykkar gætt og að börnin ykkar geti fengið hér menntun á endurgjalds,“ sagði Le Pen þegar hún ræddi við kjósendur í morgun. „Leiktímanum er lokið,“ bætti hún við.

Fastlega er gert ráð fyrir því að Marine Le Pen komist í aðra umferð forsetakosninganna næsta vor. Á vef BBC kemur fram að nýjustu skoðanakannanir bendi til þess að afar mjótt verði á munum milli hennar og François Fillon, forsetaframbjóðanda repúblikana. Aftur á móti segja tveir þriðju þátttakenda að þeir myndu taka Fillon fram yfir Le Pen í seinni umferðinni. 

Meðal helstu áherslumála Front National (Þjóðfylkingarinnar) eru úrsögn úr Evrópusambandinu, vísa ólöglegum innflytjendum úr landi og draga úr komu innflytjenda til landsins.

Bætt við klukkan 11:17

Aðspurð af fréttamanni AFP eftir flutning ræðunnar í París segist Le Pen aðeins eiga við börn ólöglegra innflytjenda en það kom ekki fram í ræðunni. Þar talaði hún um útlendinga. Hún segir að börn ólöglegra innflytjenda eigi ekki að fá að stunda nám í grunnskólum og eins eigi að synja þeim um þjónustu hins opinbera.

Hins vegar eigi þeir útlendingar sem ekki greiði skatta í Frakklandi að greiða fyrir skólagöngu barna sinna í skólum á vegum hins opinbera. Greiðsla skatta í Frakklandi sé forsenda fyrir ókeypis skólagöngu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert