Stöðugur straumur fólks úr austurhluta Aleppo

Sýrlenskir borgarar á leið úr austurhluta Aleppo.
Sýrlenskir borgarar á leið úr austurhluta Aleppo. AFP

Um 50.000 almennir borgarar hafa flúið austurhluta Aleppo síðustu tvo dagana. Þetta segir talsmaður varnarmálaráðuneytis Rússlands. Sýrlenski stjórnarherinn reynir nú að ná völdum í austurhlutanum og segja Rússar að herinn stjórni um 93% af borginni allri. 

Greint er frá þessu á vef BBC.

Igor Konashenkov, talsmaður varnarmálaráðuneytis Rússlands, sagði í dag að rúmlega þúsund uppreisnarmenn hafi lagt niður vopn síðan í gær. Þá sagði hann að stöðugur straumur fólks færi í gegnum sérstaka mannúðarganga í borginni sem leiða til svæða undir stjórn stjórnarhersins. Að sögn Konashenkov flúðu 30.000 manns í gær og þá höfðu 20.000 manns flúið þegar hann ræddi við fjölmiðla í dag.

Þau svæði þar sem uppreisnarmenn halda sig hafa orðið fyrir stöðugum loftárásum stjórnarhersins og Rússa síðustu daga og vikur en eins og fyrr segir hefur herinn náð 93% af borginni á sitt vald.

Ástandið í Aleppo er mjög slæmt að sögn sýrlenskra aðgerðarsinna en þeir saka stjórnarherinn um að nota efnavopn í árásum sínum. Birtu þeir myndbönd sem sýna börn og fullorðna eiga erfitt með að anda eftir að þeir önduðu að sér gasefnum. Samkvæmt frétt Sky News voru efnavopnin notuð í hverfinu al Qasiliah í austurhluta borgarinnar. 

Sameinuðu þjóðirnar áætluðu í gær að allt að 100.000 manns væru nú á svæði uppreisnarmanna í Aleppo sem að sögn samtakanna minnkar stöðugt. Þar er lítill sem enginn aðgangur að mat eða læknishjálp.

Sýrlensk stjórnvöld hafa sagst vera tilbúin til þess að halda viðræðum við uppreisnarmennina áfram en án „utanaðkomandi afskipta eða skilyrða“.

Aleppo var einu sinni stærsta borg Sýrlands, þekkt viðskipta- og iðnaðarborg. Borginni hefur verið skipt í tvennt frá miðju ári 2012, í austur og vestur þar sem uppreisnarmenn stjórnuðu austurhlutanum en herinn vesturhlutanum. Síðustu mánuði hefur þó herinn náð sífellt meira landsvæði í borginni með aðstoð Írana og Rússa.

Rússar segja 50.000 manns hafa yfirgefið austurhluta borgarinnar síðan í …
Rússar segja 50.000 manns hafa yfirgefið austurhluta borgarinnar síðan í gær. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert