Handtóku kufl-lausa konu

Sádiarabískar konur ræða saman.
Sádiarabískar konur ræða saman. AFP

Lögregla í Sádi-Arabíu hefur handtekið unga konu sem birti mynd af sér á samfélagsmiðlum þar sem hún var klædd í marglitan kjól utandyra. Strangar reglur gilda um klæðaburð kvenna í konungsríkinu og hefur verið kallað eftir því að konan verði tekin af lífi.

Konan, sem kallar sig Malak al-Shehri, birti myndina á Twitter eftir að hún tilkynnti að hún hygðist yfirgefa heimili sitt án þess að klæðast abaya; síðum kufli og slæðu.

Tístið varð til þess að margir kölluð eftir lífláti Shehri undir myllumerkinu „Við krefjumst handtöku uppreisnarseggsins Engils Shehri“ en Malak þýðir „engill“.

Margir tilkynntu Shehri til trúarlögreglunnar og hún var að lokum handtekinn, samkvæmt dagblaðinu Al-Sharq. Talsmaður lögreglunnar sagði í samtali við blaðið að Shehri, sem er á þritugsaldri, hefði verið færð í fangelsi.

Þá sakaði hann hana um að „tala opinskátt um bönnuð samskipti við [óskylda] karlmenn.“

Auk þess sem strangar reglur gilda um klæðaburð í Sádi-Arabíu mega konur ekki aka né umgangast karlmenn sem eru þeim óskyldir.

Þess ber að geta að Shehri fjarlægði myndina og eyddi Twitter-aðgangi sínum vegna harðrar gagnrýni íhaldssamra netverja.

Nánar má lesa um málið hjá Guardian.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert