Hafa eignast tvo syni í haldi talibana

Caitlan Coleman og Joshua Boyle ásamt sonum sínum.
Caitlan Coleman og Joshua Boyle ásamt sonum sínum. Stilla úr myndskeiðinu

Par frá Norður-Ameríku, sem hefur verið í haldi talibana í fjögur ár kemur fram í nýju myndskeiði ásamt ungum sonum sínum þar sem þau biðja forseta Bandaríkjanna, Barack Obama og Donald Trump til þess að tryggja lausn þeirra.

Kanadamaðurinn Joshua Boyle og bandarísk eiginkona hans, Caitlan Coleman, hafa eignast tvo syni eftir að hafa verið rænt í Afganistan árið 2012 er þau voru á bakpokaferðalagi í Mið-Asíu.

Myndskeiðið, sem er fjögurra mínútna langt, sýnir parið með drengina í kjöltum sínum. „Við höfum beðið síðan árið 2012 eftir því að einhver áttaði sig á vandamáli okkar,“ segir Coleman í myndskeiðinu og biður Obama og Trump um að bjarga fjölskyldunni. Ekki er vitað hvort Coleman var að lesa texta handrits en upptakan er frá 3. desember. 

Parið sást síðast í myndskeiði í ágúst en þá voru drengirnir ekki sýndir. Þá báðu þau ríkisstjórnir heimalanda sinna að þrýsta á stjórnvöld í Kabúl um fangaskipti. Í maí voru sex talibanar teknir af lífi í fangelsi í Kabúl en um var að ræða fyrstu aftökurnar síðan ný stefna forseta Afganistan, Ashraf Ghani, tók gildi. Nýja stefnan er mun harðari en sú fyrri.

Foreldrar Caitlan, James og Lyn Coleman, sem eru búsett í Pennsylvaníu, biðluðu til talibana fyrr á árinu um að þeir myndu láta parið og börnin laus úr haldi. Þau hafa ekki séð dóttur sína síðan í júlí 2012 þegar hún lagði af stað í ferðalagið með Boyle. Þau fóru fyrst til Rússlands og enduðu í Afganistan.

Colemans-hjónin segja í viðtali við Circa fréttastofuna að þau hafi fengið bréf frá Caitlan í nóvember þar sem fram kom að hún hefði eignast annan son. Annars viti þau fátt um afdrif dóttur sinnar. 



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert