Saka Ísraela um árásir í Sýrlandi

AFP

Sýrlensk yfirvöld saka Ísraela um að hafa gert árásir á svæði vestur af höfuðborg landsins, Damaskus. Fréttir hafa borist um að nokkrum eldflaugum hafi verið skotið á herflugvöll í útjaðri borgarinnar.

Þetta kemur fram í frétt BBC en þar er vísað í heimildir Reuters-fréttastofunnar. Ekki er vitað hvort einhverjir hafi farist í árásunum en eldar kviknuðu á flugvellinum. Ísraelsk yfirvöld hafa hvorki játað né neitað að hafa gert árásir í Sýrlandi undanfarin ár en talið er að ísraelski herinn hafi sprengt upp nokkrar vopnasendingar sem væru ætlaðar liðsmönnum Hisbollah frá því stríðið hófst í Sýrlandi árið 2011. Líbanska Hisbollah-hreyfingin hefur sent þúsundir hermanna til Sýrlands til þess að styðja við forseta landsins, Bashar al-Assad, í stríðinu við stjórnarandstæðinga.

Sýrlenska ríkisfréttastofan Sana greindi frá því í nótt að sprengingar hafi heyrst frá Mezzeh-herflugvellinum og að sjúkrabílar væru á leið þangað. Heimildir fréttastofunnar úr röðum sýrlenska hersins herma að ísraelsk yfirvöld styðji hryðjuverkasamtök og að ísraelsk herflugvél hafi skotið eldflaugum frá Galelíuvatni (sem er í Ísrael) skömmu eftir miðnætti í nótt. Sýrlensk yfirvöld vara Ísraela við afleiðingunum af því að styðja við bakið á hryðjuverkasamtökum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert