„Ég er með ykkur 1000%“

Donald Trump í höfuðstöðvum CIA í Langley, Virginia.
Donald Trump í höfuðstöðvum CIA í Langley, Virginia. AFP

Forseti Bandaríkjanna, Donald Trump, heimsótti höfuðstöðvar leyniþjónustunnar (CIA) í dag og sagði starfsfólki þar að hann stæði með því 1000%.

Um stutta heimsókn var að ræða á skrifstofuna í Langley, Virginíu, en undanfarið hefur Trump þvertekið fyrir það sem CIA hefur sagt um aðkomu Rússa að kosningabaráttunni á síðasta ári.

„Það er enginn sem hefur sterkari taugar til leyniþjónustustofnana og CIA en Donald Trump,“ sagði Trump í þriðju persónu um sjálfan sig þegar hann ávarpaði starfsfólkið.

Hann þakkaði starfsmönnum CIA fyrir þeirra þjónustu en þetta er fyrsta alríkisstofnunin sem Trump heimsækir eftir að hann tók við embætti forseta í gær. 

„Ég elska ykkur, ég virði ykkur,“ sagði Trump. „Við erum öll á sömu bylgjulengd, er það ekki?“ og vísaði þar til baráttunnar gegn vígasamtökunum Ríki íslams. 

Að sögn Trump hefur ekki öllum vopnum verið beitt sem Bandaríkin hafa yfir að ráða og of mikil hófsemi hafi verið ríkjandi. „Við verðum að losa okkur við Ríki íslams.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert