Nánast frosin í hel í Serbíu

Þau hósta, eru kalin og klóra sér stöðugt vegna lúsa sem hafa fasta búsetu í höfði þeirra. Hundruð ungra flóttamanna búa við ömurlegar aðstæður í yfirgefinni vöruskemmu í Belgrad í Serbíu.

Frá því Evrópusambandið lokaði landamærum sínum í mars í fyrra hafa þúsundir flóttamanna haldið til í ríkjum á Balkanskaganum þar sem yfirvöld hafa sýnt þeim litla samúð.

Ivan Miskovic, sem er í flóttamannaráði Serbíu, segir að þrátt fyrir að ungu mennirnir hafi leitað skjóls við járnbrautarteina höfuðborgarinnar séu nýjar „Jungle“-búðir ekki að myndast í Belgrad. Vísar hann þar til búða sem urðu til í frönsku hafnarborginni Calais þar sem þúsundir flóttamanna höfðust við í þeirri von að komast yfir Ermarsundið, til Bretlands. Búðirnar í Calais voru jafnaðar við jörðu í október. 

Hjálparsamtökin Læknar án landamæra (MSF) settu upp fimm tjöld í síðustu viku fyrir flóttafólkið. Tjöldin eru skammt frá vöruhúsinu en þar er hvorki rennandi vatn né rafmagn í boði. Stephane Moissang, sem stýrir aðgerðum MSF í Serbíu, segir að þetta sé gert til þess að veita þeim sem minnst mega sín aðstoð, einkum börnum.

Meðal þeirra er átta ára drengur frá Afganistan, Aziz Rahman, sem bíður ásamt 17 ára gömlum frænda sínum eftir að faðir hans komi til þeirra. Hann situr í varðhaldi fyrir að hafa komið með ólöglegum hætti inn í landið. 

Miskovic er lítt hrifinn af framlagi MSF og segir að þetta styðji ekki við stjórnvöld sem vilja að fólk komi í opinberar flóttamannamiðstöðvar.  Stjórnvöld í Serbíu leggi áherslu á að fjölga slíkum miðstöðvum. Yfir 7.300 flóttamenn eru núna í Serbíu, samkvæmt áætlunum flóttamannaaðstoðar Sameinuðu þjóðanna, UNHCR, og búa í einhverjum þeirra 17 flóttamannamiðstöðva sem reknar eru af stjórnvöldum.

Yfir eitt þúsund flóttamenn til viðbótar eru í landinu og nánast allir í Belgrad. Flestir þeirra eru ungir karlmenn eða unglingspiltar. Mjög kalt er í veðri í Serbíu og er yfirleitt um 10 stiga frost á nóttinni. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert