Vilja að stjórnvöld hætti við að bjóða Trump

Elísabet Bretadrottning hefur tekið á móti mörgum þjóðhöfðingjum á valdatíð …
Elísabet Bretadrottning hefur tekið á móti mörgum þjóðhöfðingjum á valdatíð sinni. Væntanleg heimsókn Trump til Bretlands hefur þó vakið nokkra úlfúð og hefur 1,6 milljón manna skrifað undir undirskriftalista um að hætt verði við heimsóknina. AFP

Boð Donald Trumps Bandaríkjaforseta í opinbera heimsókn til Bretlands, hefur sett Elísabetu Bretadrottningu í erfiða stöðu að því er AFP-fréttastofan hefur eftir fyrrum hátt settum embættismanni innan bresku stjórnsýslunnar. Rúmlega 1,6 milljón manns hafa nú sett nafn sitt á undirskriftalista þar sem bresk stjórnvöld eru hvött til að hætta við heimboðið. Þá hafa þúsundir tekið þátt í mótmælum á götum úti vegna þeirrar ákvörðunar Trump að banna ríkisborgurum 7 múslimaríkja að koma til Bandaríkjana.

Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, bauð Trump í opinbera heimsókn til Bretlands þegar hún heimsótti forsetann í síðustu viku, fyrst erlendra þjóðarleiðtoga.

Peter Ricketts, sem áður var hátt settur í breska utanríkisráðuneytinu, leggur til að ekki verði um efsta stig opinberrar heimsóknar að ræða, þar sem Elísabetu Bretadrottningu verði sem þjóðhöfðingja, gert að vera gestgjafi Trumps. Þess í stað verði um einfaldari opinbera heimsókn að ræða. Með þessu megi koma hlífa drottningunni við þeirri smán sem heimsókn Trump hefði í för með sér.

Ricketts, sem á sæti í lávarðadeildinni og sem var þjóðaröryggisráðgjafi í stjórnartíð David Camerons, segir í opnu bréfi sem birt var í dagblaðinu Times að heimboð May hafa verið ótímabært.

„Það hefði verið mun skynsamlegra að bíða og sjá hvernig forseti hann yrði áður en lagt var að drottningunni að bjóða honum heim. Nú er búið að setja drottninguna í mjög erfiða stöðu,“ sagði í bréfi Ricketts.

Opinberar heimsóknir sem flokkast sem svo nefndar „state visits“ fela í sér að þátttöku Bretadrottningar og eru æðsta form yfirlýsingar á vinatengslum ríkjanna. Opinberar heimsóknir sem flokkast sem „official visits“ eru hins vegar mun íburðarminni og fela yfirleitt ekki í sér þátttöku þjóðhöfðingja.

May tilkynnti um heimboðið á fundi með Trump í Hvíta húsinu, en heimsókn May var ætlað að auka viðskiptatengsl ríkjanna.

Rickett segir enginn fordæmi fyrir því að bandarískur forseti komi í opinbera heimsókn til Bretlands á fyrsta ári sínu í embætti. „Ríkisstjórnin verður að bregðast hratt við til að vernda hennar hátign gegn auknum ágreiningi.“

Times hefur eftir heimildamönnum tengdum konungsfjölskyldunni að heimboðið sé samkvæmt tillögu May og að konungsfjölskyldan vilji ekki dragast inn í stjórnmáladeilur.

Fyrrverandi utanríkisráðherra Breta, William Hague, sagði í grein í Daily Telegraph heimsóknina lítið áhyggjuefni. „Drottning sem í gegnum áratugina hefur verið beðin um að vera gestgjafi harðstjóra á borð við Mobuto forseta Zaire og hinum rúmenska Ceausescu mun ekki eiga í vanda með að taka á móti hvatvísum milljarðamæringi frá New York,“ skrifaði Hague.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert