„Í stríð við Kína á næstu tíu árum“

Donald Trump óskar Bannon til hamingju með nýju ráðgjafastöðuna, degi …
Donald Trump óskar Bannon til hamingju með nýju ráðgjafastöðuna, degi eftir embættistöku sína. AFP

Bandaríkin og Kína munu heyja stríð á næstu tíu árum vegna eyja í Suður-Kínahafi, og um það er enginn vafi. Á sama tíma munu Bandaríkin vera í öðru meiriháttar stríði í Mið-Austurlöndum.

Þetta er skoðun manns, sem af mörgum er nú talinn einn sá valdamesti í bandarísku stjórnkerfi. Steve Bannon, sem áður stýrði hægrisinnaða fréttavefnum Breitbart, og er nú aðalráðgjafi Donalds Trump Bandaríkjaforseta, lét ofangreind orð falla í mars á síðasta ári.

Frétt mbl.is: Hægri höndin eykur vald sitt

Bannon gegnir aðalhlutverki

Á þeim tveimur vikum sem liðnar eru síðan Trump tók við embætti forseta, hefur Bannon gegnt aðalhlutverki í ákvörðunum hans.

Þannig var hann skipaður í aðalnefnd þjóðaröryggisráðsins og átti mikinn þátt í tilskipun forsetans um ferðabann ríkisborgara sjö ríkja til Bandaríkjanna. 

Í útvarpsþáttum sem hann stýrði fyrir Breitbart sagði hann ljóst hverjar helstu ógnir við Bandaríkin væru.

„Við munum fara í stríð í Suður-Kínahafi eftir fimm til tíu ár. Það er enginn vafi um það. Þeir eru að taka sandrif og gera úr þeim einfaldlega kyrrstæð flugmóðurskip, og láta eldflaugar þar ofan á,“ sagði hann meðal annars, að því er fram kemur í umfjöllun The Guardian.

Bannon á leið til embættistöku Trumps fyrr í mánuðinum.
Bannon á leið til embættistöku Trumps fyrr í mánuðinum. AFP

Hunsa úrskurð Alþjóðadómstólsins

Stjórnvöld Kína hafa um nokkurt skeið fullyrt að allt Suður-Kínahaf sé innan yfirráðasvæði þess, en sex önnur ríki gera einnig tilkall til hluta svæðisins. Kína hefur þá einnig reist þar fjölda gervieyja á sandrifjum og skerjum, til að styrkja stöðu sína á svæðinu, lagt á þær flugbrautir fyrir herflugvélar og komið upp loftvarnabyssum.

Gerðardóm­stóll við Alþjóðadóm­stól­inn í Haag hafnaði í júlí til­kalli Kín­verja til Suður-Kína­hafs, en stjórn­völd á Fil­ipps­eyj­um höfðu óskað eft­ir úr­sk­urði dóm­stóls­ins.

Í úr­sk­urðinum sagði að það eng­ar sann­an­ir væru fyr­ir því að Kína geti út frá sögu­legu sam­hengi gert til­kall til hafsvæðis­ins og þeirra auðlinda sem þar kunna að finnast.

Kínversk stjórnvöld létu þó ekki þar við sitja. Í yf­ir­lýs­ingu frá kín­verska ut­an­rík­is­ráðuneyt­inu, degi eftir að úrskurðurinn féll, sögðust þau ekki viðurkenna lög­sögu dóm­stóls­ins í mál­inu og að úr­sk­urðurinn yrði virtur að vett­ugi.

Frétt mbl.is: Kínverjar hunsa úrskurðinn

„Kristna vestrið á undanhaldi“

Skoðanir Bannons, og staða hans í innsta hring Trumps, hafa aukið á ótta um hernaðarátök við Kína, ekki síst eftir að nýskipaður utanríkisráðherra Bandaríkjanna, Rex Tillerson, sagði að Bandaríkin myndu meina stjórnvöldum Kína aðgang að þeim sjö gervieyjum sem þau hafa búið til í Suður-Kínahafi.

Sérfræðingar vöruðu um leið við því að nokkrar athafnir í þá veru myndu leiða til stríðs.

Frétt mbl.is: Trump sagður hætta á kjarnorkustyrjöld

Bannon geldur augljóslega varhug við vaxandi áhrifum Kína í Asíu og víðar, og virðist um leið líta á stjórnvöld þess sem hreina og klára andstæðinga Bandaríkjanna.

„Þú ert með Íslam á mikilli uppleið, og sömuleiðis Kína. Ekki satt? Og þau eru metnaðarfull. Þau eru hrokafull. Þau eru á hreyfingu. Og þau halda að kristna vestrið sé á undanhaldi,“ sagði hann í útvarpsþætti fyrir um ári síðan.

Á sama degi og Trump tók við embætti sínu, varaði kínverski herinn við því að stríð á milli landanna tveggja gæti átt sér stað á kjörtímabili Trumps.

Innan æðstu stjórna kjarnorkuveldanna, báðum megin Kyrrahafsins, virðist því horft á stríð sem raunhæfan möguleika.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert