Gegn hnattvæðingu og öfga-íslam

Forsetaframbjóðandi franska þjóðernisflokksins Þjóðfylkingarinnar ætlar að heyja kosningabaráttuna sína á grundvelli baráttu gegn hnattvæðingu og öfga-íslam. Þetta kom fram á kosningafundi í frönsku borginni Lyon í morgun.

Marine Le Pen sagði á fundinum að hún hygðist semja upp á nýtt við forystu Evrópusambandsins um skilmálana fyrir aðild Frakka að sambandinu, og takist það ekki fái þjóðin að kjósa um hvort Frakkar segi sig úr ESB, líkt og Bretar gerðu á síðasta ári.

Kosið verður til forseta þann 23. apríl næstkomandi og greinir BBC frá því að Front National ætli að byggja kosningabaráttuna sína á sömu óánægju og Donald Trump gerði út á í forsetakosningunum vestra og andstæðingar Evrópusambandsins í tengslum við þjóðaratkvæðagreiðsluna um Brexit síðasta sumar.

Á fundinum í morgun sagðist Le Pen vilja „frjálst, óháð og lýðræðislegt ríki“ en hnattvæðingin þýddi „framleiðslu á þrælum til að selja hinum atvinnulausu,“ líkt og hún orðaði það á fundinum í morgun. Sagði hún að lausn Þjóðfylkingarinnar væri staðbundin bylting sem skilaði snjallri verndunarhyggju og efnahagslegri þjóðernishyggju. Þá sagði Le Pen ESB vera mistök þar sem sambandið hefði aldrei staðið við loforð sín.

Marine Le Pen á kosningafundi í Lyon í morgun.
Marine Le Pen á kosningafundi í Lyon í morgun. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert