Ráðgjafinn biður varaforsetann afsökunar

Þjóðaröryggisráðgjafi Bandaríkjanna hefur beðið varaforsetann Mike Pence afsökunar á þeim ágreiningi sem samskipti hans við sendiherra Rússlands hafa valdið. Þetta segir í tilkynningu frá Hvíta húsinu.

Ráðgjafinn, Michael Flynn, hefur verið í brennidepli eftir að greint var frá því að hann hefði rætt um viðskiptaþving­an­ir Banda­ríkj­anna gagn­vart Rússlandi við Ser­gei Kislyak, sendi­herra Rússa í Banda­ríkj­un­um, í aðdrag­anda embættis­töku Trumps í janú­ar.

Samræður þeirra kunna að hafa brotið í bága við lög, sem banna óbreytt­um borg­ur­um að beita sér í ut­an­rík­is­mál­um Banda­ríkj­anna.

Varaforsetinn Mike Pence hafnaði opinberlega öllum ásökunum þessa efnis fyrir hönd Flynn. En síðan þá hefur Flynn tjáð Pence að þvinganirnar kunni að hafa borið á góma.

Flynn var í fremstu röð á blaðamannafundi Trumps ásamt kanadíska forsætisráðherranum Justin Trudeau fyrr í dag. Trump var ekki spurður um málefni Flynn af þeim tveimur fréttamönnum sem fengu færi á að spyrja hann. Myndskeið af fundinum má sjá hér að ofan.

Talsmaður forsetans, Sean Spicer, sagði svo nú í kvöld að forsetinn væri að meta stöðuna. Sagði hann Trump vera að tala við varaforsetann og annað fólk, „um það sem hann telur mikilvægasta málefnið – þjóðaröryggi okkar.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka