Óvíst hvort Flynn nýtur trausts

Michael Flynn, þjóðaröryggisráðgjafi Donalds Trump Bandaríkjaforseta.
Michael Flynn, þjóðaröryggisráðgjafi Donalds Trump Bandaríkjaforseta. AFP

Háttsettur ráðgjafi Donalds Trumps Bandaríkjaforseta neitaði því í fjölmiðlaviðtölum um helgina að lýsa yfir trausti í garð Michaels Flynn, þjóðaröryggisráðgjafa forsetans, en greint hefur verið frá því að Flynn hafi rætt um viðskiptaþvinganir Bandaríkjanna gagnvart Rússlandi við Sergei Kislyak, sendiherra Rússa í Bandaríkjunum, í aðdraganda embættistöku Trumps í lok janúar.

Fram kemur á fréttavef breska ríkisútvarpsins BBC að hafi Flynn rætt við Kislyak gæti það hafa farið gegn lögum sem banna óbreyttum borgurum að beita sér í utanríkismálum Bandaríkjanna. Vitað er að Flynn ræddi við sendiherrann nokkrum sinnum símleiðis í desember. Bæði Flynn og Mike Pence, varaforseti Bandaríkjanna, hafa hafnað því að hann hafi rætt við Kislyak.

Flynn neitaði í fyrstu að ræða málið við fjölmiðla en sagðist síðan ekki vera viss um það hvort hann hefði rætt við rússneska sendiherrann sem leiddi til vangavelta um það hvort hann hefði greint Pence rangt frá. Stephen Miller, ráðgjafi Trumps, neitaði að svara því þegar fjölmiðlar inntu hann eftir því hvort Trump bæri traust til Flynns. Sagði hann að forsetinn sjálfur yrði að svara því. Talið er að staða Flynns í starfsliði Trumps sé til endurskoðunar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert