Aðstæður í vesturhluta Mósúl sagðar versna hratt

Íbúar sem flúðu úr borginni Mósúl er áhlaup Írakshers hófst …
Íbúar sem flúðu úr borginni Mósúl er áhlaup Írakshers hófst dvelja nú margir í Hasansham flóttamannabúðunum. AFP

Aðstæður íbúa í vesturhluta írösku borgarinnar Mósúl fara hratt versnandi og eru mikið áhyggjuefni að mati Sameinuðu þjóðanna. Íraksher og bandamenn þeirra hafa staðið fyrir áhlaupi á borgina til að ná henni úr höndum hryðjuverkasamtakanna Ríkis íslams, frá því síðasta haust.

Vígamenn samtakanna hafa komið sér fyrir í vesturhluta Mósúl, þar sem þeir dvelja ásamt 750.000 almennum borgurum.

„Við höfum miklar áhyggjur af því hve hratt aðstæður fara versnandi í vesturhluta Mósúl, sagði Lisa Grande, samhæfingarstjóri mannúðaraðstoðar Sameinuðu þjóðanna, í samtali við fréttamenn.

„Fjölskyldur eru í miklum vanda, búið er að loka helmingi verslana,“ sagði Grande er hún var í heimsókn í Hasansham flóttamannabúðunum sem eru staðsettar á milli Mósúl og Arbil.

Íraski herinn hefur nú gott sem náð að umkringja Mósúl að öllu leyti, en herinn náði austurhluta borgarinnar á sitt vald í síðasta mánuði, en fjórir mánuðir eru nú frá því að áhlaupið á þetta síðasta höfuðvígi Ríkis íslams í landinu hófst.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert